Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sömdu við þjálfara Hólmfríðar um að þegja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV skjáskot - RÚV

Sömdu við þjálfara Hólmfríðar um að þegja

12.01.2018 - 10:26
Norska blaðið VG hefur eftir formanni norska liðsins Avaldsnes, sem Hólmfríður Magnúsdóttir lék með, að samið hefði verið um það við fyrrverandi þjálfara Hólmfríðar að stjórn félagsins myndi ekki tjá sig um hegðun hans við framtíðarvinnuveitendur. Hólmfríður lýsti því í gær hvernig hún hefði verið stanslaust áreitt af þjálfaranum þegar hún var á mála hjá félaginu en frásögn hennar hefur vakið athygli í Noregi.

Í frétt VG er knattspyrnufélagið, Hólmfríður eða þjálfarinn ekki nafngreind.

Haft er eftir lögmanni þjálfarans að ætlast sé til þess að norskir fjölmiðlar stundi góða blaðamennsku en ekki nornaveiðar. „Hann ætlar ekki að tjá sig um þennan orðróm og sögusagnir heldur vísar bara til þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru þegar hann ákvað sjálfur að hætta.“

TV2 í Noregi hefur einnig fjallað um mál Hólmfríðar án þess að nafngreina hana, knattspyrnufélagið eða þjálfarann. Miðillinn segir þó auðvelt að átta sig á því um hvern sé rætt og haft er eftir formanni félagsins að það hafi verið erfitt að lesa frásögn Hólmfríðar.

Í frétt NRK í gærkvöld var haft eftir formanni kvennadeildar Avaldsnes að hann hafi viljað reka þjálfarann eftir að hafa verið upplýstur um hegðun hans gagnvart Hólmfríði. Hann sagðist jafnframt hafa séð hluta þeirra skilaboða sem þjálfarinn sendi Hólmfríði. NRK ræddi jafnframt við aðra liðsmenn Avaldsnes sem vildu ekki tjá sig um málið.

Saga Hólmfríðar birtist fyrst nafnlaust en mbl.is fékk síðar leyfi til að nafngreina hana. Hún hefur ekki viljað tjá sig neitt frekar um málið. Í frásögn sinni lýsir hún stanslausu áreiti af hálfu þjálfarans sem varð að lokum til þess að hún neitaði að spila undir hans stjórn. Hólmfríður segist hafa áttað sig á því hversu djúpt þetta náði á EM í Hollandi síðasta sumar en þá fann hún hvernig púls hennar rauk upp þegar hún heyrði rödd þjálfarans fyrrverandi á myndbandsklippu.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Norðmenn sýna frásögn Hólmfríðar áhuga

Jafnréttismál

Níu íþróttakonur segja frá nauðgun

Íþróttir

Landsliðskona greinir frá stanslausu áreiti

Íþróttir

Flúði bæjarfélag sitt vegna þjálfarans