Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sömdu í anda Lífskjarasamningsins

Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Verkalýðsfélag Akraness undirritaði á föstudag samning við Samband íslenskra sveitarfélaga um kaup og kjör félagsmanna sem vinna hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit. Samningurinn er í meginatriðum í anda Lífskjarasamningsins sem gerður var á almennum markaði, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur lýsir ánægju með samninginn í færslu á vef félagsins. Hið sama gerir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, á Facebook-síðu sinni. 

Að því er fram kemur á vef VLFA hækka launataxtar um 17 þúsund krónur á mánuði frá síðustu áramótum, um 24 þúsund 1. apríl og um sömu fjárhæð um næstu áramót. Launin hækka um 25 þúsund í ársbyrjun 2022. Einnig er ákvæði um að samningurinn taki sömu taxtabreytingum 1. janúar 2023 og samið verður um á minum almenna vinnumarkaði. Samningurinn gildir til loka september 2023. Sami hagvaxtarauki er í þessum samningi og Lífskjarasamningnum.

Í samningnum er einnig ákvæði um 90 þúsund króna eingreiðslu vegna afturvirkni samningsins og ákvæði um félagssjóð. Launagreiðendur eiga að greiða 1,5 prósent af heildarlaunum starfsmanna í félagssjóð sem greitt verður úr 2. febrúar ár hvert.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV