Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sölvi Björn, Jón Viðar og Bergrún Íris verðlaunuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sölvi Björn, Jón Viðar og Bergrún Íris verðlaunuð

28.01.2020 - 20:31

Höfundar

Sölvi Björn Sigurðsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Jón Viðar Jónsson eru handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem afhent voru í 31. skipti við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í kvöld, þriðjudaginn 28. janúar.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í kvöld og var sjónvarpað beint frá verðlaunaafhendingunni á RÚV. Að þessu sinni voru lagðar fram 135 bækur frá 36 útgefendum og 15 bækur í þremur flokkum fengu tilnefningu. Sölvi Björn Sigurðsson hlaut verðlaunin fyrir bók sína Selta: Apókrýfa úr ævi landlæknis í flokki fagurbókmennta. Bergrún Íris var verðlaunuð fyrir bókina Langelstur að eilífu í flokki barna- og ungmennabóka. Í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fékk Jón Viðar Jónsson verðlaun fyrir bók sína Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965.

Verðaunin eru ein milljón króna sem veitt eru fyrir hvert verðlaunaverk og eru þau kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin og Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, ávarpaði samkomuna. Þakkaði hann öllu dómnefndarfólki fyrir vel unnin störf og þá ekki síst lokadómnefndinni, en hana skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar, skipuð af forseta Íslands. Jónas Sig lék tónlist fyrir verðlaunahafa, gesti og áhorfendur fyrir og eftir afhendingu.


Mynd: RÚV / RÚV

Sögulegir atburðir og undarlegheit

Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis eftir Sölva Björn Sigurðsson er skáldsaga sem gerist árið haustið 1839. Hún segir frá póstburðarmanninum Mister Undertaker sem finnur óþekktan dreng við Hjörleifshöfða en það er landlæknir sem fær það hlutverk að vekja drenginn til lífs. Saman ákveða þeir leita uppruna drengsins og í þeirri leit heldur tvíeykið, landlæknir og Mister Undertaker, í mikið ferðalag með drenginn og lenda þeir í ýmsum ævintýrum. 

„Ég kalla þetta skáldsögu sem gerist á sögulegum tíma en er í sjálfri sér tilbúningur. Hún byggist þó á þeirri staðreynd að það var landlæknir á Höfðabrekku í Mýrdal í kringum þetta leyti en sagan er þó ekki byggð á hans ævi heldur innblásin af sögulegum atburðum og undarlegheitum,“ sagði höfundur í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni í vetur. Kvaðst hann hafa skemmt sér svo vel við að skrifa bókina og að fá að lifa og hrærast í henni að hann hafi jafnvel óttast að sleppa tökunum þegar kom að því að senda bókina í prentsmiðjuna. „Ég sagði einmitt forleggjara mínum að lífi mínu væri væntanlega að eilífu lokið eftir bókina því þá var ekkert eftir nema að prófarkalesa og öll gleði og fegurð væri mér horfin,“ sagði hann kíminn. „Það tók þó aðeins um viku að komast yfir það og svo varð ég rosalega feginn.“

Mynd: RÚV / RÚV

Ánægjulegir síðustu dagar á jörðinni

Bergrún Íris Sævarsdóttir tekst á við dauðann í bók sinni Langelstur að eilífu sem er þriðja bók í seríu hennar um vinina Rögnvald og Eyju. Þau eru bestu vinir þrátt fyrir að það sé 90 ára aldursmunur á þeim og lenda þau í ýmsum ævintýrum saman. Höfundur segir mikilvægt að ræða um viðkvæm mál, líkt og dauðann, við börn af heiðarleika og virðingu. „Mér finnst mikilvægt að tala við börn á heiðarlegan hátt, sem jafningja og af virðingu. Þau eru líka einstaklingar, með ólíkar tilfinningar.“

Rögnvaldur finnur það á sér í bókinni að það sé farið að styttast í annan endann á vegferð hans og saman ákveða þau Eyja að gera síðustu dagana sem ánægju- og eftirminnilegasta. „Þannig að þau búa til lista yfir allt sem hann á eftir að gera, eins konar lokalista,“ segir Bergrún. „Þar er ýmislegt, eins og að hoppa á trampólíni, syngja í karókí, fara í vatnsrennibraut og í fallhlífarstökk. Maður er víst aldrei of gamall til þess að gera það.“

Mynd: RÚV / RÚV

Stofnun getur aldrei búið til list

Í bókinni Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 eftir Jón Viðar Jónsson er nýstárlegum aðferðum beitt til að varpa ljósi á merkan kafla í íslenskri leiklistarsögu. Höfundur segir sögu allra helstu leikara tímabilsins, greinir frá sigrum þeirra og ósigrum jafnframt því sem hann gerir valdabaráttunni að tjaldabaki ítarleg skil. Í bókinni segir hann frá leikurum sem mörgum eru eftirminnilegir frá þessu tímabili en beinir sérstaklega sjónum að ellefu einstaklingum og þeirra sögu. „Sjálfum finnst mér leikhússaga verða þurr og stofnanakennd þegar menn fara að segja sögu leikhúss sem stofnunar. Það er nauðsynlegt en hættan við þá nálgun er að mínu mati sú að þá gleyma menn listinni,“ segir Jón Viðar við Egil Helgason í Kiljunni. „Stofnun getur aldrei búið til list. Það eru einstaklingar sem búa til list og listamenn og það eru þeir sem ég er að reyna að nálgast og endurvekja á síðum þessarar bókar.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent í kvöld

Bókmenntir

Hallgrímur, Sigrún og Flóra Íslands verðlaunuð