Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sólveig Anna setur Degi skilyrði fyrir viðræðum

04.03.2020 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist tilbúin til að hitta Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, á fundi til að ræða yfirstandandi kjaradeilur. Fyrir því setur hún hins vegar tvö skilyrði, annað þeirra að þau mætist í kappræðum í sjónvarpi eða útvarpi.

Ótímabundið verkfall Eflingar hefur staðið yfir síðan 17. febrúar. Nýr fundur hefur enn ekki verið boðaður í deilunni og hafa samskipti milli deiluaðila fyrst og fremst farið fram í yfirlýsingum á Facebook.

Sólveig Anna bauðst í gær til að gera tveggja sólarhringa hlé á verkfallinu gegn því að borgin féllist á tilboð Eflingar um 100 til 110 þúsund hækkun grunnlauna. Tók það ekki til annarra þátta eins og álaga, sérgreiðslna og uppbóta. Fékk Dagur frest til klukkan 16 í gær til að svara tilboðinu.

Dagur sagðist ekki vilja standa í skeytasendingum en bauð Sólveigu Önnu þess í stað til fundar til að ræða stöðuna í kjaradeilunni.

Í morgun skildi Sólveig Anna eftir skilaboð á Facebook síðu Dags þar sem hún sagðist tilbúin til að hitta hann, þó að undangengnum tveimur skilyrðum.

Annars vegar að Dagur birti opinberlega glærur sem kynntar voru á samningafundi þann 19. febrúar og hins vegar að Dagur fallist á að mæta henni, eða öðrum fulltrúa Eflingar, í útvarps- eða sjónvarpsviðtali áður en vikan er úti.