
Sölubann á lækningatæki til Íslands með öllu ólíðandi
Á meðal þess sem ekki má selja til Íslands tímabundið, samkvæmt banni Evrópusambandsins, eru andlitsgrímur og hlífðarfatnaður. Mikil eftirspurn er eftir slíkum vörum þessa dagana, vegna COVID-19 faraldursins.
Gengur gegn EES-samningnum
Guðlaugur Þór hefur þegar mótmælt þessu sölubanni. „Við höfum í gær og í dag komið þeim sjónarmiðum kirfilega á framfæri við ráðamenn ESB. Við eigum jafnframt náið og gott samstarf við stjórnvöld í Noregi og annarra EFTA-ríkja um að koma þessu máli í réttan farveg sem allra fyrst,“ segir Guðlaugur Þór.
„Það er með öllu ólíðandi að íslenskir innflytjendur fái þau svör hjá sínum birgjum að bannað sé að flytja vörurnar sem um ræðir til Íslands. Bannið gengur gegn öllu því sem EES-samningurinn byggir á og við gerum ráð fyrir því að úr þessu leysist mjög fljótt,“ segir Guðlaugur Þór.