Sóli Hólm frumsýnir nýja eftirhermu

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Sóli Hólm frumsýnir nýja eftirhermu

25.03.2020 - 12:52

Höfundar

Helstu skemmtikraftar landsins leita nú nýrra leiða til að gleðja aðdáendur sína í samgöngubanninu. Sólmundur Hólm lætur ekki sitt eftir liggja og hefur frumsýnt nýja eftirhermu.

Skemmtikrafturinn Sólmundur Hólm kynnti aðdáendum sínum nýja eftirhermu á Facebook-síðu sinni í gær, söngvarann Valdimar Guðmundsson. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan. 

Sólmundur er af mörgum talinn ein allra besta eftirherma landsins og á meðal annars söngvarana Pál Óskar, Herbert Guðmundsson, blaðamanninn Jakob Bjarnar, útvarpsmanninn Rikka G og Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, í vopnabúri sínu. Valdimar bætist því í fríðan hóp.

Sólmundur birti myndband á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hann notar eigin útgáfu af rödd Valdimars til að flytja lagið Ameríka eftir Braga Valdimar Skúlason en textann samdi Magnús Eiríksson. Lagið var frumflutt í Hljómskálanum á RÚV veturinn 2011. 

Í færslu með myndbandinu minnist Sólmundur þess þegar hann var staddur baksviðs á tónleikum Eyjólfs Kristjánssonar árið 2018 og Valdimar spurði hvort hann gæti hermt eftir sér. Sólmundur sagðist þá geta reynt en óttaðist að hann yrði fljótlega hás. „Síðan þá hef ég samt alltaf haft þetta bak við eyrað. Þú ert það mikilvægur í íslenskri tónlistarsögu að það er hreint út sagt dónalegt að maður reyni ekki einu sinni,“ bætti Sólmundur við.

Minna er að gera hjá skemmtikröftum þjóðarinnar í samgöngubanninu sem sett var á til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar þannig að Sólmundur nýtti tímann til að frumsýna þessa nýju eftirhermu.

Að lokum skal tekið fram að hljómsveitin Valdimar átti að koma fram á afmælistónleikum í Eldborg á föstudag en þeim hefur verið frestað í ljósi aðstæðna. Í staðinn heldur hljómsveitin tónleika í beinni útsendingu á RÚV 2 og Rás 2 næstkomandi föstudagskvöld.