Sókninni inn í Sýrland haldið áfram

epaselect epa07908168 Turkish soldiers with armored vehicles and tanks during a military operation in Kurdish areas of northern Syria, near the Syrian border, in Akcakale, Sanliurfa, Turkey 09 October 2019. Turkey has launched an offensive targeting Kurdish forces in north-eastern Syria, days after the US withdrew troops from the area.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tyrkir héldu áfram sókn sinni inn í Sýrlandi í morgun og eru tyrkneskar sérsveitir þar í forystu. Tyrkneskir ráðamenn segja hernaðaraðgerðir í samræmi við áætlanir, en Kúrdar segjast hafa hrundið árás tyrkneskra hermanna á bæina Tal Abyad og Ras al-Ain. 

Innrás Tyrkja í Sýrland hófst í gær með loft- og stórskotaliðsárásum á bækistöðvar Kúrda og bæi á valdi þeirra. Seinna um daginn fóru tyrkneskir hermenn yfir landamærin á fjórum stöðum nærri Tal Abyad og Ras al-Ain. Þúsundir bæjarbúa hafa lagt á flótta.

Samkvæmt upplýsingum frá Kúrdum hafa minnst þrír liðsmanna þeirra og fimm almennir borg ara fallið í árásum Tyrkja.

Bandaríkjastjórn hefur verið sökuð um að snúa baki við Kúrdum, bandamönnum sínum í baráttunni gegn hryðjuverkasveitum Íslamska ríkisins, og veitt Tyrkjum frjálsar hendur til að fara með her inn í Sýrland.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vísaði því á bug í yfirlýsingu á Twitter, hann sagði að innrás Tyrkja væri slæm hugmynd og kvaðst ekki hafa lagt blessun sína yfir hana og sama gerði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í viðtali í gærkvöld. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í dag til þess að ræða innrásina í Sýrland og fundur hefur verið boðaður hjá Arababandalaginu á laugardag.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi