
Söguleg ríkisstjórn á öllu pólitíska litrófinu
Tvö ár eru síðan landsmenn gengu til kosninga. Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn og kynntu stjórnarsáttmálann. „Þetta er söguleg ríkisstjórn sem spanar allt pólitíska litrófið og með konu sem forsætisráðherra úr vinstri sósíalistaflokki og ýmsir héldu að það yrði erfitt að halda ríkisstjórninni saman. Mér sýnist hafa gengið mjög vel, hún hefur ekki lent í neinum stórfelldum vandræðum.“ segir Ólafur.
Hann segir að ýmislegt hafi reynt á samstarfið en þó ekkert eins og Lífskjarasamninginn. „Það sem stendur kannski upp úr eru kjarasamningarnir, sumir töldu að þeir yrðu mjög erfiðir og jafnvel banabiti stjórnarinnar en hún komst mjög farsællega frá því.“
Ólafur segir allt benda til þess að ríkisstjórnin muni halda út kjörtímabilið. „Það veit maður að vísu aldrei. Það er aðeins að hægjast á hagvextinum og þá getur hún eytt minni peningum væntanlega og það getur valdið ákveðnum vandræðum en ég sé ekkert á sjóndeildarhringnum núna en að hún klári út kjörtímabilið.“