Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sögðust ekki geta samþykkt listann óbreyttan

07.06.2017 - 20:03
Þingflokkur Viðreisnar 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Formaður Viðreisnar gerði athugasemdir við lista nefndar sem mat hæfi dómara við Landsrétt, þar sem listinn uppfyllti ekki jafnréttisskilyrði að mati flokksins. Dómsmálaráðherra breytti listanum í kjölfarið. Hún segir að fleiri ástæður hafi þó komið til.

Á lista hæfisnefndar voru tíu karlar og fimm konur, sem þóttu hæfust til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, sagði á opnum fundi þingflokksins í gær að listinn hefði ekki farið í gegn út af jafnréttissjónarmiðum. „Það vorum við sem rákum hana tilbaka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn,“ sagði Hanna Katrín á fundinum.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar segist hafa gert athugasemdir í samtali við ráðherra. „Við sögðum einfaldlega að listi sem að uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann.“

Samkvæmt svari frá Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, viðraði hann einnig áhyggjur af kynjahalla á listanum í samtali við dómsmálaráðherra.

„Ég átti samtöl við forystumenn allra stjórnmálaflokkanna á þinginu og mér var það alveg ljóst að tillaga dómnefndar myndi ekki hljóta brautargengi á þinginu,“ segir Sigríður Á. Andersen.

En í hverju voru þær athugasemdir fólgnar sem gerðar voru við tillöguna? „Ég ætla ekki að lýsa einstökum samtölum við einstaka forsvarsmenn en það var bara ljóst að mönnum fannst þetta ekki vera listi sem menn treystu sér til að samþykkja,“ segir Sigríður. „Það var víðtæk samstaða um þá skoðun mína að það væri einstrengingslegt af dómnefndinni að meta bara 15 umsækjendur hæfasta í þessi 15 embætti, en það voru fleiri sem að gerðu líka athugasemdir við listann að öðru leyti.“ Aðspurð segir hún ekki hafa verið gerðar neinar athugasemdir við ákveðna aðila á listanum. Viðtalið við ráðherrann í heild sinni má hlýða á í spilaranum hér fyrir neðan.

„Hlýtur að þurfa að skoða nánar“

„Við höfum auðvitað talað fyrir því að það yrði litið til jafnréttislaga, að það yrði litið til kynjasjónarmiða við þessa skipan, en íslensk jafnréttislög fela það í sér að það sé verið að velja á milli tveggja einstaklinga sem þykja jafn hæfir og sá valinn af því kyni sem að hallar á í viðkomandi stöðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. „Þessar nýju upplýsingar sem eru að koma fram hjá Viðreisn um að þetta hafi verið skilyrði af þeirra hálfu við þessa skipan, auðvitað hlýtur það að vekja ennþá frekari spurningar um málatilbúnað þessa máls sem að hlýtur að þurfa að skoða nánar.“

Benedikt segir að vandann megi rekja til þess að hæfisnefndin hafi ekki horft til jafnréttissjónarmiða. Þá hafi það flækt málin að nefndin kom með fimmtán manna lista þrátt fyrir að oft hafi munað litlu á umsækjendum. Hann segir ekki hægt að fullyrða að munur hafi verið á hæfi sumra á listanum. „Munurinn á einstaklingum þarna er 0,003 í þessu mati sem dómnefndin setti fram, það er alls ekki hægt að segja að þetta mat hafi verið nákvæmt upp á þúsundasta part,“ segir Benedikt.

Mynd: RÚV / RÚV