
Sögðu Boris Johnson að skammast sín
Hópur Brexit-andstæðinga tók á móti Boris Johnson þegar hann og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar hugðust ræða við fréttamenn utan dyra í borginni. Fólkið gerði hróp að breska forsætisráðherranum og sagði honum að skammast sín. Hann hætti þá við að taka þátt í fréttamannafundinum og hraðaði sér á brott í bíl.
Bettel var því einn um að gera viðstöddum grein fyrir viðræðum forsætisráðherranna. Hann sagði að Boris Johnson hefði ekki lagt fram neinar raunhæfar tillögur. Engar hugmyndir um breytingar væru uppi á borðinu sem gætu orðið grundvöllur fyrir samningaviðræður. Þörf væri á skrifuðum tillögum, klukkan tifaði og því væri tími kominn til fyrir Boris Johnson að hætta að tala og fara að gera eitthvað ef hann ætlaði að leggja fram skriflegar tillögur.