Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sögðu Boris Johnson að skammast sín

16.09.2019 - 16:18
epa07846787 Luxembourg's Prime Minister Xavier Bettel speaks to the press after a meeting with British Prime Minister Boris Johnson in Luxembourg, 16 September 2019. British Prime Minister Boris Johnson is on a one-day visit in Luxembourg to discuss the United Kingdom leaving the European Union, dubbed Brexit.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
Boris Johnson kom sér undan því að svara fréttamönnum í Lúxemborg. Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, afþakkaði að taka þátt í fréttamannafundi með forsætisráðherra Lúxemborgar eftir fund í dag með honum og forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Bresk stjórnvöld segja að fundurinn hafi verið uppbyggilegur.

Hópur Brexit-andstæðinga tók á móti Boris Johnson þegar hann og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar hugðust ræða við fréttamenn utan dyra í borginni. Fólkið gerði hróp að breska forsætisráðherranum og sagði honum að skammast sín. Hann hætti þá við að taka þátt í fréttamannafundinum og hraðaði sér á brott í bíl.

Bettel var því einn um að gera viðstöddum grein fyrir viðræðum forsætisráðherranna. Hann sagði að Boris Johnson hefði ekki lagt fram neinar raunhæfar tillögur. Engar hugmyndir um breytingar væru uppi á borðinu sem gætu orðið grundvöllur fyrir samningaviðræður. Þörf væri á skrifuðum tillögum, klukkan tifaði og því væri tími kominn til fyrir Boris Johnson að hætta að tala og fara að gera eitthvað ef hann ætlaði að leggja fram skriflegar tillögur.