Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Söfnin heim með #safniðísófann

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

Söfnin heim með #safniðísófann

27.03.2020 - 15:11

Höfundar

Söfn á Akureyri auka virkni sína á samfélagsmiðlum nú þegar samkomubann er skollið á. Hugmyndin er að teygja sig til eigenda safnanna, halda þeim lifandi og hafa gaman. Flugsafn Íslands bíður fólki til að mynda að fljúga til fortíðar.

Vegna samkomubanns eru söfn lokuð um ókominn tíma. Starfsmenn á söfnum Akureyrar láta ekki deigan síga og bregðast við breyttum aðstæðum. Nú auka söfnin virkni sína á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #safniðísófann og bjóða upp á efni og viðburði sem njóta má heima í sófa, hvenær sem er.

Bókabingó og flug til fortíðar

Amtsbókasafnið heldur bóka- og bíómyndabingó, er með bók dagsins, bókaandlit og ljóð vikunnar alla þriðjudaga. Þá vekur safnið líka sérstaka athygli á rafbókasafni Íslands og hvetur fólk til að nýta það nú þegar útlán annarra bóka liggja niðri. 

Hérðaðsskjalasafnið, Listasafnið og Minjasafnið láta ekki sitt eftir liggja, öll bjóða þau upp á fjölbreytt efni, nýtt og gamalt. Hjá Flugsafni Íslands er hægt að fljúga til fortíðar og skoða gamlar umfjallanir, myndir frá flugdögum fyrri ára og auglýsingar sem þykja frekar skondnar nú á tímum.

Iðnaðarsafnið biður hagyrðinga og vísnasmiði að setja saman vísur um þá undarlegu tíma sem við lifum og verður með „fyrirtæki vikunnar“ þar sem ýmiss konar starfsemi er rifjuð upp. 

Ná til eigenda safnanna

Þórgnýr Dýrfjörð hjá Akureyrarstofu segir þau hafa farið að funda örar og vinna meira saman um leið og ljóst var að það myndi herða verulega að starfsemi safna eða jafnvel loka.

Söfnin hafi öll verið að gera eitthvað á netinu áður en samkomubannið skall á en nú hafi þau öll gefið rækilega í. Hugmyndin sé að teygja sig til eigenda safnanna, bæjarbúa og annarra áhugasamra, halda virkni safnanna og hafa gaman. 

Komið til að vera

Þetta sé líka angi af því að hugsa miðlun upp á nýtt. Svona sé hægt að ná til nýrra gesta og notenda og sé örugglega eitthvað sem komi til með að halda áfram þegar þessu tímabili sé lokið.

Hann segir viðbrögðin hafa verið svakalega fín sem sjáist best á viðbrögðum við færslunum. Hann er búinn að koma myllumerkinu á framfæri við Safnaráð Íslands og segir vel geta verið að fleiri söfn sláist í hópinn innan skamms. 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Sektir eða fangelsi við broti á reglum um sóttkví

Menningarefni

Bækur rjúka út í samkomubanni

Klassísk tónlist

Sinfóníukvöldum hleypt af stokkunum á RÚV 2