Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sóaði heilu ári á Íslandi

23.12.2014 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstiréttur felldi í kvöld úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir eþíópískum hælisleitanda. Maðurinn segist ekki ætla að andmæla brottvísun sinni úr landi. Hann segist hafa sóað því heila ári sem málsmeðferðin hafi tekið.

Maðurinn, Firaol Taresa, segist vera einn þeirra sem lifðu af mannskætt sjóslys við eyjuna Lampedusa fyrir rúmu ári þegar meira en 360 hælisleitendur fórust. Hann sótti um hæli á Íslandi í janúar á þessu ári en þá kom í ljós að hann hafði þegar fengið hæli á Ítalíu. Útlendingastofnun ákvað því að vísa honum úr landi.

Taresa kærði þá ákvörðun til Innanríkisráðuneytisins án árangurs. Hann var lagður inn á geðdeild í byrjun desember þegar hann greindi frá því á fundi með fulltrúa Ríkislögreglustjóra að hann hefði íhugað sjáflsvíg vegna málsins. Hann var útskrifaður eftir tvær vikur þar sem hann þótti ekki þjást af geðsjúkdómum. Lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu óskaði þá eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum þar sem að hann myndir reyna að torvelda flutning.

Héraðsdómur varð við þeirri beiðni en Hæstiréttur hefur nú hafnað henni því meðalhófs hafi ekki verið gætt. Taresa var sleppt úr haldi í kvöld. Í viðtali við fréttastofu sagði hann óvíst hvar hann ætti að dveljast. Hann hefði engan sakaferil og ekkert í hans hegðun styddi þær fullyrðingar að hann myndi torvelda flutning úr landi. Taresa sagðist ekki ætla að mótmæla brottvísun. Hann gagnrýndi málsmeðferðarhraðann og liti svo á að hann hefði sóað heilu ári meðan málið hafi verið til meðferðar. Nú skömmu fyrir fréttir fengust þær upplýsingar frá lögmanni Taresa að yfirvöld hefðu útvegað honum dvalarstað.