Snýst um að gefa bros og dreifa gleði í sálina

Snýst um að gefa bros og dreifa gleði í sálina

16.12.2017 - 20:41

Höfundar

Á aðventunni taka Arnar og Jón jólaskraut upp úr fjörutíu kössum og koma fyrir í húsinu sínu á Dalvík. Þeir eru með vinsælan flóamarkað í bílskúrnum allan ársins hring sem fær þó á sig mikinn jólabrag í desember. Þeir segja að þetta snúist um að njóta, gefa bros og dreifa gleði í sálina.

Fjórtán ára jólaskrautssöfnun

Það er mikil upplifun að koma til þeirra Arnars Símonarsonar og Jóns Arnars Sveinssonar, eða Adda og Nonna, í desember. Þeir eru mikil jólabörn og í þau fjórtán ár sem þeir hafa verið saman hafa þeir ferðast um heiminn og sankað að sér alls konar skrauti. Hver hlutur á sinn stað og yfirleitt breyta þeir ekki miklu á milli ára.  

Fjörutíu kassar af skrauti

„En sumt af þessu er náttúrulega sem maður hefur átt frá því að maður var lítill. Og svo munum við hvar við höfum keypt þennan hlut og þennan hlut,” segir Nonni. „Við erum með jólatré frá mömmu og pabba og annað frá ömmu og afa. Ég hugsa að það væri nú komið á haugana ef ég hefði ekki gripið þau til hliðar.”

Addi og Nonni eiga um það bil fjörutíu kassa, fulla af jólaskrauti, misstóra þó. Þeir segja þó að húsið verði ekkert tómlegt þegar aðventunni lýkur og dótið sett á sinn stað, niður í geymslu. „Við erum stundum bara fegnir þegar þetta er farið. Þá er þetta búið að vera alveg í mánuð,” segir Nonni.

Með blómaverkstæði í kjallaranum

Nonni kom sér upp litlu blómaskreytingaverkstæði í kjallaranum og pöntunum rignir inn. „Þetta eru önnur jólin sem ég geri þetta,” segir hann. „Ég var með blómabúð á Akranesi í nokkur ár. Og svo bjuggum við í Danmörku og maður sá þar spretta upp svona jólaskreytingaverkstæði og í bílskúrum hingað og þangað rétt fyrir jólin. Og mér datt í hug, af hverju ekki bara að gera þetta hér?”

Félagsmiðstöð og flóamarkaður

Þeir eru með flóamarkað í bílskúrnum hjá sér allan ársins hring, sem breytist þó í eins konar jólamarkað á aðventunni. 

„Við erum yfirleitt bara með opið um helgar og eftir hádegi þessa daga. Og það er rennerí og þetta er svona pínulítil félagsmiðstöð í hverfinu, fólk hittist hérna og kemur oft saman,” segir Addi. „Svo er þetta bara svo hrikalega gaman. Það eru oft kassar hérna fyrir utan bílskúrinn um helgar og maður er að finna oft algjörar gersemar í þeim. Við Nonni stöndum í þessu saman og höfum gaman af.” 

„Við erum í rauninni bara að njóta. Það er það sem er svo gaman.” 

„Svo þegar jólin koma þá kemur jólalykt og jólaskraut og jóladótið upp og svo nýtur maður þess að standa hérna niðri og taka á móti fólki og gefa bros og dreifa smá gleði í sálina. Það er eiginlega það sem er svo skemmtilegt,” segir Addi.