Snúnar viðræður um stjórnarmyndun í Danmörku

Mynd: Danmarks Radio / DR
Stjórnarmyndunarviðræður í Danmörku eru flóknar og erfiðar því flokkarnir, sem reyna stjórnarmyndun hafa ólíkar skoðanir og stefnu í mörgum málum. Stefnan í málefnum innflytjenda og útlendinga er afar ólík og hið sama gildir um efnahagsmál og skatta.

Vinstriflokkar fengu meirihluta

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, og stuðningsflokkar hans misstu meirihluta á þingi í kosningunum 5. júní. Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna, hefur rætt við leiðtoga annarra flokka sem fengu kjörna þingmenn og síðustu daga rætt stjórnarmyndun.

Ólík stefna verðandi stjórnarflokka í málefnum innflytjenda

Flokkarnir, sem nú ræða stjórnarmyndun, eru auk Jafnaðarmanna Radikale Venstre, sem raunar er miðjuflokkur, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Einingarlistinn, Enhedslisten, sem er lengst til vinstri af flokkum á danska þjóðþinginu, Folketinget. Tveir síðastnefnu flokkarnir eru í flokkabandalagi með Vinstri grænum. Þeir flokkar hafa allt aðra stefnu í málefnum útlendinga og innflytjenda en Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen, sem í raun hefur tekið upp harða innflytjendastefnu Danska þjóðarflokksins og annarra hægriflokka.

Ágreiningur um efnahagsstefnuna

Ágreiningur um stefnu í málefnum innflytjenda og útlendinga hefur verið lagður til hliðar í bili. Í gær var rætt um stefnu í efnahagsmálum og þar er skilur einnig mikið á milli flokkanna. Enhedslistinn vill auka útgjöld til velferðarmála og auka áherslu á umhverfisvæn verkefni. Þetta vilja þau borga með skattahækkunum á þá ríkustu. Pernille Skipper er talsmaður Enhedslistans. 

Við viljum að skattar á fjármagnstekjur séu hinir sömu og á launatekjur, við leggjum kannski til að taka aftur skattalækkanir á fyrirtæki og lækkun bifreiðagjalda, það sem hefur gagnast þeim sem eru mjög vel staddir. Pernille Skipper 

Radikale Venstre hefur lýst yfir að flokkurinn vilji borgaralega efnahagsstjórn, eins og það er orðað. Morten Østergaard, formaður flokksins, segir að hvorki vandamál í opinberum né einkarekstri verði leyst með skattahækkunum.   

Frederiksen vongóð

Mette Frederiksen sagði eftir viðræðurnar í gær að hún væri vongóð um að flokkarnir næðu saman. Það yrði gremjulegt og í hennar augum alrangt ef flokkar með svo traustan þingmeirihluta gætu ekki myndað ríkisstjórn. Mörgum Dönum þætti það einkennilegt ef ekki tækist að mynda stjórn.

Hlé vegna Fundar fólksins

Hlé hefur verið gert á formlegum viðræðum vegna þess að nánast allir helstu leiðtogar í dönsku þjóðlífi eru nú komnir til Borgundarhólms og sækja þar Fund fólksins, árlega samkomu þar sem rætt er um landsins gagn og nauðsynjar. Hugsanlega gefst þeim sem nú reyna að mynda stjórn tækifæri til að ræða ágreiningsefnin í andrúmslofti sem er ekki eins formlegt og fundir í þinghúsi Dana, Kristjánsborgarhöll. 

Snúið verkefni

Verkefni Mette Frederiksen er nokkuð snúið. Fyrir kosningar sagðist hún helst vilja að Jafnaðarmenn sætu einir í stjórn með stuðningi annarra flokka sem höfðu lýst stuðningi við hana sem forsætisráðherra. Takist Frederiksen ekki að sætta ólík sjónarmið og stefnu Radikale Venstre, Sósíalíska þjóðarflokksins og Enhedslistans gæti hún hringt í Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og leiðtoga Venstre.

Lars Løkke opnaði í hálfa gátt

Lars Løkke ýjaði fyrir kosningar að mögulegu samstarfi Jafnaðarmanna og Venstre. Hann sagði þetta við útgáfu bókar sem hann skrifaði. Ef enginn opnar eru dyrnar lokaðar, sagði Lars Løkke og bætti við, í þessari bók opna ég í hálfa gátt. Frederiksen brást við ummælum forsætisráðherrans með því að lýsa undrun og ítreka að Jafnaðarmenn vildu sitja einir í stjórn, en þau væru reiðubúin að vinna með mörgum flokkum, líka Venstre.

Ekki fordæmi til eftirbreytni

Venstre og Jafnaðarmenn hafa aðeins einu sinni setið saman í stjórn á friðartímum, það var í þriðju og síðustu stjórn Ankers Jørgensens fyrir 40 árum. Sú stjórn sat aðeins í rúmt ár og hefur ekki fengið góð eftirmæli. Margir danskir Jafnaðarmenn telja því fordæmið ekki til eftirbreytni. Samstjórn Jafnaðarmanna og Venstre er því ekki talinn mjög líkleg núna, en þetta er mögulegt.

Staðan gæti orðið dramatískari í næstu viku

Christina Cordsen, stjórnmálafréttaskýrandi danska ríkisútvarpsins, segir að hafi flokkarnir ekki nálgast hver annan þegar viðræðurnar hefjast aftur gæti hlaupið meiri dramatík í viðræðurnar en hingað til. Stjórnmálaskýrendur hafa raunir margir bent á að stjórnarmyndun gæti tekið dágóðan tíma að þessu sinni. Lisbeth Knudsen, aðalritstjóri vefritsins Altinget.dk, sagði til dæmis í Kastljósi í síðustu viku að búast mætti við löngum viðræðum þó að ástandið yrði ef til vill ekki eins og var í Svíþjóð eftir kosningar þar í fyrra. Svíar kusu 9. september en ný stjórn tók ekki við fyrr en í janúar á þessu ári.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi