Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Snowden vill koma til Íslands

21.12.2016 - 17:55
Mynd: EPA / EPA
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hitti í gær í Moskvu uppljóstrarann Edward Snowden. Hún segir að hann vilji gjarnan koma til Íslands og gerast íslenskur ríkisborgari. Hún vill að Íslendingar stigi það skref og til að byrja með veiti honum ríkisborgararétt án þess að komi strax til Íslands.

Birgitta fór í örstutta heimsókn til Moskvu. Annars vegar til að taka þátt í heimildarmynd um stöðu lýðræðisins sem frönsk fréttakona er að vinna og hins vegar gagngert til að hitta Edward Snowden sem hefur farið huldu höfði í Moskvu undanfarin rúm þrjú ár. Hún segist hafa áhyggjur af stöðu hans  vegna forsetaskiptanna í Bandaríkjunum. Trump verðandi forseti Bandaríkjanna hefur líst því yfir að Snowden ætti að fá dauðadóm. Birgitta segir að menn viti ekki hvað taki við þegar Trump sest á forsetastól.

„Það hafa margir áhyggjur af því að staða Snowdes sé ekki eins örugg og hún var. Það var þannig að Rússland var sennilega öruggast staður í heiminum fyrir hann. Það hefur oft verið talað um meðal háttsettra manna í Bandaríkjunum að hann sé réttdræpur og það eigi bara senda á hann dróna til að skjóta hann niður," segir Birgitta. 

Vill aftur heim til Bandaríkjanna      

Hún er ein þeirra sem hefur beitt sér í málum Snowdens.  Hann lak þúsundum leyniskjala 2013 þegar hann starfaði hjá Öryggisstofnun Bandaríkjanna.  Skjölin sýndu umfangsmikið persónueftirlit sem bandarísk stjórnvöld hófu eftir ellefta september 2001. Ef hann snýr til baka á hann yfir höfðu sér að vera dæmdur fyrir landráð og  30 ára fangelsi. Birgitta var að hitta hann í fyrsta sinn þegar þau ræddu saman í gær í Moskvu. Hún segir að hann vilji helst af öllu snúa aftur til Bandaríkjanna en vilji fá loforð um að hann fái réttlát réttarhöld.

Tilbúinn að koma til Íslands

Snowden hefur sótt um ríkisborgararétt í fjölmörgum löndum en ekkert land hefur orðið við hans beiðni. Hann sótti um hér á landi á sínum tíma og Píratar lögðu fram frumvarp 2013 ásamt þingmönnum úr hinum stjórnarandstöðuflokkunum Samfylkingu, Bjartri framtíð og VG um að hann fengi ríkisborgararétt hér á landi. Birgitta segir að á meðan hann geti ekki snúið aftur heim vilji hann gjarnan að eitthvert landi veiti honum ríkisborgararéttindi.

Birgitta segir að það eina sem geti veitt Snowden skjól sé að veita honum ríkisborgararétt. En hvað sagði Snowden á fundinum með Birgittu í gær í Moskvu. Er hann tilbúinn að koma til Íslands?

„Já, hann væri tilbúinn að koma til Íslands," segir Birgitta.“

Hún segir að sennilega kæmist hann ekki til Íslands þó svo að hann fengi ríkisborgararétt því enn sem komið sé engin örugg leið hingað fyrir hann.

„Það fyrsta sem við getum er gert er að veita honum ríkisborgararréttindi þó svo að hann kæmist ekki hingað strax. Það myndi hjálpa á marga vegu fyrir hann," segir Birgitta.

Nánar er rætt við hana í Speglinum