Tveir snarpir skjálftar urðu í Bárðarbungu á fimmta tímanum í morgun. Fyrri skjálftinn mældist fjórir að stærð klukkan 04:22, og aðeins sex mínútum síðar mældist annar skjálfti af stærðinni 3,5. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst síðan, en að sögn vakthafandi jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands eru engin merki um gosóróa.