Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snjóþyngsli gera landanum erfitt fyrir

19.03.2020 - 11:48
Mynd: Olga Tabaka / Aðsend
Snjóþyngsli og ófærð síðustu vikur hafa gert landsmönnum víða um land erfitt fyrir. Á Grenivík hafa snjókmoksturstæki verið á ferðinni um bæinn frá því í desember.

Á Grenivík, eins og víða annarsstaðar, hefur snjóað nær linnulaust frá því um miðjan desember. Þegar fréttastofu bar þar að garði voru grenvíkingar að moka frá húsum sínum og flestir orðnir frekar þreyttir á ástandinu sem var síðast svona slæmt veturinn '95.

Langir dagar hjá mokstursmönnum

Þessum mikla snjó fylgir mikill mokstur. Á Grenivík eru tvö moksturstæki sem sjaldan hafa stoppað í vetur. Sigurður Baldur Þorsteinsson, mokstursmaður, segir törnina orðna langa: „Við fengum smá breik þarna um jólin, en annars bara non-stop“. Vinnudagurinn byrjar um fjögur leitið og stendur langt fram á kvöld. 

En það er víðar en á Grenivík sem snjórinn hefur tekið sinn toll. Geir Árdal, bóndi á bænum Dæli í Fnjóskadal keypti á dögunum nýjan plóg til að koma fólkinu á bænum til vinnu þar sem vegurinn að bænum er mjög snjóþungur og bara mokað 2-4 sinnum í viku.