Snjósleðaferðir til að nýta innilokað hótel

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Snjósleðaferðir til að nýta innilokað hótel

18.03.2020 - 15:32

Höfundar

„Við vildum reyna að búa til einhverja traffík yfir dauða tímann; janúar, febrúar, mars og það er gert með því að laða að okkur sleðamenn,“ segir Héðinn Birnir Ásbjörnsson, á Hótel Djúpavík í Árneshreppi á Ströndum.

Sleðahópurinn leggur af stað í Steingrímsfirði þar sem vegurinn í Djúpavík í Árneshreppi, þangað sem að ferðinni er heitið, er ófær eins og stóran hluta vetrarins. Fólk kemur með sína eigin sleða og þarf lítið að hafa með sér.
 
„Við förum með og leiðbeinum mönnum um svæði þar sem er hægt að leika sér en tökum líka túra inn á jökul og hérna norður eftir þegar færi og veður gefst. Menn þurfa ekki að taka neitt með sér nema tannburstann. Þeir fá uppábúin rúm og þriggja rétta máltíð,“ segir Héðinn Birnir.

Fóru á vélsleða í skólann

Að ferðunum standa feðgar frá Hólmavík ásamt eigendum Hótels Djúpavíkur, þar á meðal systkini sem að ólust upp í Djúpavík og reiddu sig á snjósleða til dæmis til að fara í skólann.
 
„Þetta var náttúrlega um tíma aðalfarartækið okkar sem ólustum hérna upp,“ segir Héðinn Birnir. „Þegar við eignuðumst þennan sleða þarna '93-'94 þá var þetta bara eins og við fengjum þyrlu. Þá var hægt að fara nánast hvenær sem er hérna yfir fjöllin,“ segir hann.