Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snjómoksturspeningar ársins í Dalvíkurbyggð að klárast

06.03.2020 - 17:16
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Þeir fjármunir sem áætlaðir voru til snjómoksturs í Dalvíkurbyggð árið 2020 eru að verða búnir. Kostnaður við mokstur í desember var nærri helmingur af öllum snjómoksturskostnaði sveitarfélagsins árið 2019.

„Veturinn hefur verið mjög snjóþungur og miklir umhleypingar sem oft á tíðum kalla á daglegan snjómokstur bæði í þéttbýli og dreifbýli,“ segir í nýjustu fundargerð byggðaráðs Dalvíkurbyggðar.

Síðustu þrír mánuðir þeir dýrustu í fimm ár

Í samantekt á kostnaði vegna snjómoksturs í sveitarfélaginu árin 2015-2020 kemur fram að í nýliðnum desember, janúar og febrúar, er varið meiri fjármunum til snjómoksturs en í nokkrum öðrum mánuðum á þessu 5 ára tímabili. Kostnaðurinn árin 2015-2018 var að meðaltali um 25 miljónir króna á ári. Árið 2019 var hann tæpar 40 miljónir og þar var desember stærsti einstaki mánuðurinn með 15 miljónir króna í moksturskostnað. Snjómokstur í janúar 2020 kostaði 11,5 milljónir og áætlað er að kostnaðurinn í febrúar verði um 14 miljónir.

Fjármagn til snjómoksturs ársins að klárast

Í fundargerð byggðaráðs kemur fram að í fjárhagsáætlun 2020 hafi verið gert ráð fyrir 25,8 miljónum í snjómokstur. Það fjármagn sé nú að klárast. Til að mæta því samþykkir byggðaráð samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun að upphæð 15 milljónir króna. Þá er sveitarstjóra falið að sækja um viðbótarframlög úr Jöfnunarsjóði vegna snjómoksturs veturinn 2019-2020.