Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snjókoma í kvöld og færð gæti spillst

12.03.2020 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Talsverð snjókoma verður suðvestantil á landinu í kvöld, en einnig í öðrum landshlutum í nótt og fyrramálið. Færð gæti spillst með skömmum fyrirvara, einkum á fjallvegum. Mokstur á vegum gengur vel og aðalvegir opnir.

„Suðvestanlands mun snjóa frá miðjum degi, frá bakka sem fer vaxandi hér skammt suður undan.  Austur yfir Hellisheiði og Þrengsli verður þétt snjókoma frá um kl. 17-18, þá strekkingur og blint.  Annars hægari vindur og bleyta á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu um miðnætti“ segir í ábendingu frá veðurfræðingi.

Mokstur gengur vel

Hringvegurinn er nú opinn og rauðum litum fækkar óðum ef litið er á kort Vegagerðarinnar. Vetrarfærð er þó í öllum landshlutum og flughált á köflum á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Opið er um Öxnadalsheiði, Vatnsskarð, Ólafsfjarðarmúla og Mývatns- og Möðrudalsöræfi en vegir eru einbreiðir að hluta og unnið að breikkun. Ófært er til Grenivíkur. Ljósavatnsskarð er einbreitt að hluta vegna bíla sem eru fastir.

 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV