Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snjóflóðin svipuð þeim sem féllu fyrir 25 árum

15.01.2020 - 03:17
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ekki er enn hægt að segja með vissu hversu stór snjóflóðin voru sem féllu á Flateyri og í Súgandafjörð í nótt. Þau eru þó verulega stór. Fyrra snjóflóðið á Flateyri féll úr Skollahvilft, þaðan sem snjóflóðið féll árið 1995. Varnargarðurinn kom í veg fyrir að flóðið færi yfir bæinn í þetta sinn en það olli verulegu tjóni í höfninni.

Seinna flóðið féll úr Bæjargili. Það var nógu öflugt til að það færi að hluta yfir snjóflóðavarnargarðinn við bæinn og á eitt hús. Unglingsstúlku var bjargað eftir að hafa verið föst þar í rúman hálftíma. Systkini hennar, fimm ára stúlka og níu ára drengur, komust af sjálfsdáðum út úr húsinu ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór snjóflóðið í gegnum húsið.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

 

Sjávarflóð á Suðureyri

Snjóflóðið við Súgandafjörð féll yfir Norðureyri, sem er gegnt Suðureyri, handan fjarðarins. Snjóflóðið olli sjávarflóði sem flæddi að nokkrum húsum og inn í einhver hús. Margrét Sigurðardóttir, sem býr á Suðureyri, skrifaði á Facebook í gærkvöld að flætt hefði inn í anddyrið á heimili hennar. Á tímabili óttaðist hún að gluggar á efri hæð myndu brotna vegna flóðsins. Lítið tjón varð á húsinu, en bíllinn hennar skemmdist lítið eitt þegar hann færðist til í flóðinu.