Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snjóflóðin fóru yfir báða varnargarða á Flateyri

15.01.2020 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Snjóflóðið sem féll niður Skollahvilft á Flateyri í gærkvöldi er stærra en talið var í morgun. Þetta er niðurstaða sérfræðinga sem hafa verið að mæla stærð flóðsins á Flateyri í dag. Sérfræðingarnir komust til Flateyrar með varðskipinu Þór. 

„Við fyrstu niðurstöður er talið að það hafi verið að sambærilegri stærð og flóðið 1995,“ sagði Auður Kjartansdóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofunni í ofanflóðum, þegar Spegillinn ræddi við hana í kvöld. 

Við skoðun sérfræðinga í dag kom í ljós að flóðið sem olli tjóni í höfninni hafði að hluta til farið yfir varnargarðinn, eins og áður var vitað um flóðið sem féll hinum megin í bænum úr Innra-Bæjargili. Niðurstöður mælinga liggja ekki fyrir en vísbendingar eru um að meira hafi flætt yfir Skollahvilftargarðinn en yfir garðinn undir Innra-Bæjargili.

Auður sagði við Spegilinn að eftir flóðin 1995 hafi rýmingar- og hættumat verið endurmetið og hætta reiknuð upp á nýjan leik. Í framhaldi hafi þessir varnargarðar verið byggðir. Þessir varnargarðar hafi áður fengið á sig flóð en ekki eins stórt og féll í gær. Auður sagði að flóðið í nótt og afleiðingar þess leiði til þess að nú þurfi að fara aftur í endurskoðun á hættumatslínum.  

Auður segir að ennþá sé hættustig og rýming í gildi á Ísafirði. 

Fréttin hefur verið uppfærð.