Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snjóflóðavarnir: Fyrri áætlanir hafa ekki gengið eftir

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Fjármálaráðherra segir varnargarða hafa sannað gildi sitt en horfast verði í augu við að fyrri áætlanir um uppbyggingu snjóflóðavarna annars staðar hafi ekki gengið eftir. Forsætisráðherra segir viðbrögð hafa verið mjög góð. Miklu hafi munað að varðskip hafi verið við Ísafjörð vegna slæmrar veðurspár.

Fulltrúar ríkisstjórnar, ríkislögreglustjóra, Veðurstofunnar, Náttúruhamfaratryggingar, Rauða krossins og fleiri fóru yfir stöðuna á fundi í Ráðherrabústaðnum síðdegis. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Sömuleiðis hafa viðbrögðin verið mjög snör og það er auðvitað mikil mildi og blessun að mannbjörg varð þegar stúlkunni var bjargað á Flateyri. Þannig að það er auðvitað stórkostlegt. Þannig að þegar við horfum yfir sviðið að þá vissulega hafa viðbragðsaðilar staðið sig afburðavel en það þarf auðvitað núna að fara yfir rýmingarsvæðin á þessum stöðum og hvernig þetta gekk og horfa til lengri tíma,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Þessi mannvirki sem að búið er að reisa þarna að þau sönnuðu gildi sitt og eiga að verða okkur tilefni til þess að skoða hvað við erum búin að gera annars staðar þar sem við ætluðum að vera búin að byggja upp frekari varnir. Og við þurfum að horfast í augu við það að okkar fyrri áætlanir um uppbyggingu hafa ekki gengið eftir og það er kominn tími til þess að endurskoða þær áætlanir en það kallar þá á að við sköpum svigrúm í ríkisfjármálunum til þess að auka útgjöld þarna. En við erum að leggja gjald á fasteignir í landinu til þess að standa straum af slíkum framkvæmdum. Þeir hafa verið innheimtir í gegnum tíðina en þeir hafa ekki allir farið í framkvæmdir. Þeir hafa verið innheimtir í gegnum tíðina en þeir hafa ekki allir farið í framkvæmdir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Við erum líka að reyna að huga að því að koma fólki til Ísafjarðar. Við erum aðallega að hugsa um að bæta við mannskapinn og síðan þarf náttúrulega að huga að því að koma þarna vistum til fólks,“ segir Kjartan Þorkelsson settur ríkislögreglustjóri. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV