Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snjóflóð og ófærð fyrir vestan: „Fólk hjálpast bara að"

14.01.2020 - 20:56
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Á Vestfjörðum hefur verið viðvarandi óveður og ófærð í viku. Snjóflóð hafa fallið og úrval ferskvöru er hverfandi. Íbúi segir þó ekki væsa um fólk, að undanskildum majónesskorti.

Það eru hartnær allar leiðir lokaðar fyrir Vestan og verða það fram á morgundaginn. Fært hefur verið hluta úr tveimur dögum af þeim sjö síðustu og einungis tvær flugferðir af tólf verið farnar.

Fyrir vikið eru sumir Vestfirðingar fastir fjarri heimili sínu og aðrir komast ekki að heiman.

Snjóflóð fallið á vegi

Óvissustig vegna snjóflóðahættu hefur verið á  norðanverðum Vestfjörðum síðan á sunnudag og hættustig á Ísafirði síðan í gær.

Rýma þurfti húsnæði fyrirtækjanna Terra og Hampiðjunnar við Skutulsfjarðarveg og féll snjóflóð þar við í dag. Eins var ákveðið að opna ekki sorpmóttökuna í Funa. Þá hefur íbúum á einum sveitabæ í Bolungarvík verið ráðlagt að dvelja á öruggari stað.

Heildarfjöldi snjóflóða er ókunnur þar sem vegir eru ófærir og skyggni lítið. Flóð hafa þó fallið á Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdal og á Flateyrarveg í Önundarfirði og lokað vegum.

Mynd með færslu
Guðmundur Gunnarsson

Langt er síðan óveður og ófærð hafa varað jafn lengi fyrir vestan. Lífið verður samt, þrátt fyrir veður og vind, að halda sínu striki, að sögn Guðmundar Guðmundssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.

„Samfélagið bregst alltaf mjög vel við svona því að samfélagið er vant þessu. Við til dæmis lokum ekki grunnskólanum. Fólkið bara vegur og metur eftir eigin hyggjuviti. Ef það koma ekki tilmæli frá lögreglu eða almannavörnum þá bara heldur lífið áfram sinn vanagang,“ segir hann.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir, íbúi á Flateyri, og sonur hennar á skíðum á Flateyri janúar 2020.
Sæbjörg Freyja Gísladóttir og sonur hennar á skíðum á Flateyri

Samfélagið á Flateyri hefur tekið höndum saman í ófærðinni og eru börnin til að mynda sótt á skíðum og sleðum. Þar, líkt og annars staðar, er óvissuástand vegna snjóflóðahættu.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir býr á Flateyri og segir ofanflóðavarnir við bæinn breyta miklu þegar kemur að hættuástandinu.

„Ég held við vitum öll af því og kannski leggst það ekkert rosalega vel í þá sem bjuggu hérna þegar snjóflóðið féll 1995. En það féll snjóflóð í síðustu viku, við sjáum það bara út um gluggana hjá okkur. Það er hérna fyrir ofan varnargarðinn. Varnargarðurinn bara tekur við öllu og beinir því frá. Þannig hann er alveg að standa fyrir sínu og ég held að það sé enginn óöruggur sem býr hérna efst í þorpinu,“ segir Sæbjörg.

Myndir frá Flateyri í janúar 2020
Á myndinni glittir í hús Sæbjargar fyrir aftan snjó sem hlaðist hefur upp

Vöruflutningar hafa legið niðri líkt og annað. Fyrir vikið er úrval í matvörubúðum af skornum skammti, ef fólk kemst í búð. Sæbjörg segir fólk þó hafa verið vel undirbúið.

„Við náttúrulega vissum hvernig veðurspáin var. Þannig að flestir drifu sig í Bónus á föstudaginn. Ég hef ekki heyrt um neinn sem vantar neitt. Jú, ég veit að eina konu hérna niður á eyrinni vantar majónes. Annars þegar brauðið var búið í sjoppunni reddaði matráðurinn í skólanum því bara og bakaði brauð. Eitt parið vantaði þurrmjólk fyrir barnið sitt og það var bara einhver annar sem átti það og fólk hjálpast bara að,“ segir hún.

Á morgun á þó veðrinu að slota. Að sögn Vegagerðarinnar verður hafist handa við ruðning um leið og færi gefst og ekki hætt fyrr en fært er orðið. Eins mun að vonum draga úr snjóflóðahættu.