Það eru hartnær allar leiðir lokaðar fyrir Vestan og verða það fram á morgundaginn. Fært hefur verið hluta úr tveimur dögum af þeim sjö síðustu og einungis tvær flugferðir af tólf verið farnar.
Fyrir vikið eru sumir Vestfirðingar fastir fjarri heimili sínu og aðrir komast ekki að heiman.
Snjóflóð fallið á vegi
Óvissustig vegna snjóflóðahættu hefur verið á norðanverðum Vestfjörðum síðan á sunnudag og hættustig á Ísafirði síðan í gær.
Rýma þurfti húsnæði fyrirtækjanna Terra og Hampiðjunnar við Skutulsfjarðarveg og féll snjóflóð þar við í dag. Eins var ákveðið að opna ekki sorpmóttökuna í Funa. Þá hefur íbúum á einum sveitabæ í Bolungarvík verið ráðlagt að dvelja á öruggari stað.
Heildarfjöldi snjóflóða er ókunnur þar sem vegir eru ófærir og skyggni lítið. Flóð hafa þó fallið á Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdal og á Flateyrarveg í Önundarfirði og lokað vegum.