Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snjóflóð falla í mikilli ofankomu

10.02.2020 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Mikil ofankoma hefur verið frá því í gærkvöldi á Norðurlandi og Vestfjörðum og snjóflóð hafa fallið á vegi. Norðanhríð er nú víða um land og fjallvegir ófærir á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hættustigi var lýst yfir í Súðavíkurhlíð og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu. Þá hefur Siglufjarðarvegi verið lokað vegna snjóflóðahættu.

Norðan hríð er nú viða um land og fjallvegir ófærir. Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir Vestur- og Norðurland og spáð norðan hvassviðri eða stormi með snjókomu og skafrenningi.

Snjóflóð féll á Siglufjarðarveg, á Ströndinni norðan Siglufjarðar, í nótt og í morgun höfðu fallið tvö lítil flóð í vegrás vegarins um Súðavíkurhlíð. Þeim vegi var lokað í morgun og vitað er til þess að eitt flóð hafi fallið yfir veginn síðan. 

Á vef Veðurstofu Íslands segir að líklegt þyki að fleiri snjóflóð hafi fallið  á Tröllaskaga og Vestfjörðum en ekki verði hægt að skoða það fyrr en birti til. Ekki er talin hætta í byggð eins og er.