Snillingurinn í frumskóginum

Mynd: RÚV / RÚV

Snillingurinn í frumskóginum

04.11.2019 - 19:35

Höfundar

Ímynd snillingsins er mátuð við þekktar klisjur um hinn sérlundaða listamann með náðargáfurnar í leiksýningunni Stórskáldið í Borgarleikhúsinu. „Þrátt fyrir dramatíska söguna í forgrunni verksins er sýningin hnyttin og full af húmor,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson gagnrýnandi.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Stórskáldið eftir Björn Leó Brynjarsson er nýtt íslenskt leikrit sem fjallar meðal annars um raunveruleika og ímyndir, afhjúpun og uppgjör, hugmyndina um snillinginn og möguleika feðgina til að ná sátt eftir marga ára aðskilnað. Þó að verkið skírskoti á margan hátt beint inn í samfélagslega umræðu dagsins í dag hverfist kjarni þess um samskipti persónanna, líðan þeirra og tilfinningar, í eins konar nútíma-stofudrama þar sem tilfinningaleg spenna ræður ríkjum. 

Leikritið segir frá ferð heimildarmyndagerðarkonunnar Rakelar, sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur, og kærasta hennar Andra, sem Hilmar Guðjónsson leikur, inn í frumskóga Amazon þar sem faðir hennar og nóbelsskáldið Benedikt, sem Jóhann Sigurðsson leikur, dvelur í eins konar sjálfskipaðri útlegð frá samfélaginu. Hann hafði yfirgefið Rakel og móður hennar þegar hún var unglingur en hefur samband þegar hann kemst að því að hann er dauðvona. Rakel og Andri ákveða að gera heimildarmynd um Benedikt og eru því komin til Amazon í þeim tilgangi. Hins vegar verður strax ljóst að raunverulegur tilgangur heimsóknarinnar er persónulegt uppgjör Rakelar við föður sinn og einhvers konar tilraun hennar og Andra til að afhjúpa snillingsímynd skáldsins sem er alltumlykjandi. 

Snillingurinn handan samfélagsins er sannarlega ekki nýtt stef, hvorki í raunveruleikanum né í skáldskap. Nóbelsskáldið okkar byggði sér hús í óbyggðum þess tíma, nánast upp á heiði, þar sem hann gat verið í friði með sína listsköpun. Að vísu er erfitt er að sjá beina tilvísun í Laxness í skáldinu  Benedikt en hins vegar eru augljós útlitsleg líkindi við Nóbelsskáldið Hemingway, sem vildi helst hvergi annars staðar vera en lengst út á Flórídaskaga, fjarri siðmenningu. Af nógu er að taka í þeim efnum enda er það ljóst að aðstandendur sýningarinnar leika sér með ímynd snillingsins, máta hana við þekktar klisjur um hinn sérlundaða listamann með náðargáfurnar, en á sama tíma afhjúpa þær og birta áhorfendum breyskleika mannsins. Snillingshugmyndin er að sama skapi brennandi í umræðu dagsins í dag þar sem ímynd hennar á sér afar sterkar rætur í hinu karllæga. Í Stórskáldinu er þessi hugmynd enn fremur kyrfilega undirstrikuð með stöðu Benedikts sem föðurins og myndar sterk kvenpersóna Rakelar ákveðið mótvægi við þessa ímynd. Markmið hennar er afhjúpun, þ.e. að afhjúpa þessa ímynd snillingsins og birta heiminum raunverulegan breyskleika föðurins. Ómögulegt er því að komast hjá skýrum vísinum í stöðu, áhrif og afleiðingar feðraveldisins í samfélagi samtímans. 

Annað þema sem tengist orðræðu samtímans, og má segja að sé nátengt umræðunni um feðraveldið, eru minningar og upplifun. Í samskiptum Rakelar við föður sinn kemur fram skýrt ósamræmi milli minninga og upplifunar hennar og Benedikts frá því hann yfirgaf fjölskylduna. Eftir því sem á líður verkið taka minningar breytingum og hafa áhrif á upplifun af raunveruleikanum. Oft og tíðum á sér stað leikur með sannleika og lygi, eða í það minnsta þær forsendur sem minningarnar byggjast á. Þessi leikur er ýktur, til dæmis með því að sviðsetja minningar inn í verkinu í sápuóperustíl, sem gerir það að verkum að óljós upplifun er einfölduð og ýkt. Þannig verður ákveðið flökt á sannleikanum í verkinu en hins vegar ristir þessi vísun ekki nógu djúpt til að skera sig út úr heimi verksins og inn í heim áhorfandans. Það sama mætti reyndar segja um vísanir í snillingshugmyndina. 

Meginþráður leikritsins er áðurnefnt samband Rakelar og Benedikts og í raun má segja að hann sé öllum öðrum þráðum yfirsterkari í sviðsetningunni. Þó svo að þetta samband feli í sér skýrar vísanir og myndlíkingar er áherslan öll á sögu persónanna, á líðan þeirra og tilfinningalegt ferðalag. Saga Rakelar og Benedikts er í sjálfu sér klassískt stofudrama sem felur í sér afhjúpun og uppgjör sem leiðir til ákveðinnar lokaniðurstöðu. Sviðsetningin á þessu stefi verksins er vel bundin inn í aristótelískar umbúðir og nánast hvergi lausir endar og því ljóst að leikstjórnarleg áhersla hafi fyrst og fremst legið í sögu feðginanna en minna unnið með önnur stef og vísanir sem skírskota í víðara samhengi handan verksins. Táknin sem notast er við falla í skuggann á þessari sögu og lestur áhorfenda helst full-lokaður og takmarkast við heim verksins. Í þessu sambandi mætti nefna þær hugmyndir sem ræddar voru hér að ofan og einnig notkun á táknrænum heimi leikmyndar sem og möguleiki vídjósins. Leikmyndin er saman sett af eins konar frumskógi og hótelherbergi á sama tíma þar sem allar plöntur eru úr plasti og húsgögnin klisjur. Í leikmyndinni felast aragrúi tákna sem tengjast beint inn á þann leik með ímyndir sem er til staðar í leikritinu og sambandi Rakelar og Benedikts en varla hægt að segja að unnið sé með þau tákn nema að takmörkuðu leyti. Að sama skapi er rétt aðeins komið inn á möguleika vídjósins í upphafi og lok sýningarinnar en þess á milli þjónar þar aðeins tilgangi nærmyndir. Þarna er því ýjað af möguleikum í sviðsetningu sem falla síðan í skuggann af söguþræðinum sjálfum.  

Þrátt fyrir dramatíska söguna í forgrunni verksins er sýningin hnyttin og full af húmor. Stofudramað er reglulega brotið upp, annars vegar með persónu Andra sem myndar eins konar mótvægi við samband Rakelar og Benedikts, og hins vegar uppbrota í sviðsetningu þar sem leikið er með skýra stílfæringu í leik og formi, til dæmis sápuóperan. Þessi uppbrot einkennast af húmor og glensi og er persóna Andra oft og tíðum í miðpunkti þeirra. Andri er því helsti boðberi farsakenndrar kómíkur í verkinu og eru margar senur hreinlega sprenghlægilegar í meðförum Hilmars Guðjónssonar. Leikstíllinn hentar þessum galsakennda húmor líka vel, hann er hversdagslegur án þess þó að verða of raunsær, þá örlar á brecht-ískri afstöðu leikara til persónu sinnar þó hún sé ekki beint afgerandi. Þannig er átakalaust fyrir leikarana að skipta snögglega um form, fara úr raunsæislegri dramatík yfir í klisjukennda sápuóperu. Leikararnir þrír eiga auðvelt með þennan stíl en á stundum tekur dramatíkin fullmikil völd og mikilvægar senur eru yfirdramatíseraðar eins og til að hamra inn tilfinningalegt ástand persónanna. 

Það má vel velta því fyrir sér hvort að dramað hafi átt of stóran sess í verkinu á kostnað súrrealískra uppbrota, myndlíkinga, tákna og samfélagslegra vísana, því sumt virðist falla flatt þar sem sagan tekur yfir og áhorfendum gefið lítið pláss til að geta í eyður. Oft er verið að ýja að hugmyndum en samband föður og dóttur tekur yfir allt, þar liggur fókusinn í sýningunni, þó að verkið bjóði mögulega upp á annað. Að því sögðu skal engum dyljast að hér er á ferðinni áhugaverð og vel unnin sýning, full af súrrealískum húmor og grátbroslegum aðstæðum, ekki alveg hefðbundið stofudrama en að sama skapi er hún ekki beint sprúðlandi fersk. 

 

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Leikhúsi og kvikmynd teflt saman í eina heild

Leiklist

Stórskáldið í frumskóginum

Leiklist

Afhjúpun Nóbelsskálds í plastfrumskógi