Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snæfellsjökull úrskurðaður þjóðlenda

16.08.2019 - 06:35
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Snæfellsjökull og landsvæði sunnan og austan við hann eru þjóðlendur, samkvæmt úrskurðum Óbyggðanefndar í gær. Landsvæði sunnan og austan Snæfellsjökuls voru jafnframt úrskurðuð afréttur jarða í fyrrum Breiðuvíkurhreppi og Eyrarbotn var bæði úrskurðaður þjóðlenda og í afréttareign fimm tiltekinna jarða.

Samkvæmt þjóðlendulögum er þjóðlenda landsvæði utan eignarlanda, þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð réttindi. Í úrskurðum sínum í gær hafnaði Óbyggðanefnd kröfu ríkisins um að tvö svæði væru þjóðlendur, annars vegar landsvæðið milli Hraunhafnardals, Mælifells og Bjarnarfossdals og hins vegar fjalllendið milli Elliða og Lágafells, auk Baulárvalla. 

Óbyggðanefnd var stofnuð árið 1998 og hefur úrskurðað um rúmlega 88 prósent af flatarmáli landsins. 

Leiðrétt 18. ágúst 2019. Leiðrétt var að þjóðlenda er sunnan og austan við Snæfellsjökul og að Eyrarbotn var bæði úrskurðaður þjóðlenda og í afréttareign.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir