
Smyglararnir höfðu áður komið á sama bíl
Tvímenningarnir sem eru með rúmenskt og þýskt ríkisfang komu hingað með Norrænu líka í fyrrasumar. Á sömu nöfnum og nú, og það sem er meira sláandi, þá voru þeir á sama bílnum og dópið var falið í nú. Lögreglan vill engar upplýsingar veita um framvindu rannsóknarinnar, annað en það að hún sé viðamikil og sé unnin í samstarfi erlend lögregluyfrvöld. Fréttastofan hefur þó heimildir fyrir þessum leiðangri í fyrrasumar og leikur ærinn grunur á því að mennirnir hafi þá líka verið með fíkniefni í farangrinum. Þessu til viðbótar hefur annar þeirra á síðustu misserum, komið að minnsta kosti einu sinni flugleiðis.
Tvímenningarnir hafa verið í gæsluvarðhaldi síðan þeir komu með Norrænu í byrjun ágúst, fyrst voru þeir úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald og einangrun, og síðan í fjórar vikur. Annar þeirra kærði síðara gæsluvarðhaldið til Landsréttar, sem féllst á að aflétta einangrun mannsins, sem nú hefur til dæmis fullan aðgang að síma. Hinn kærði ekki og er enn í einangrun. Báðir eru þeir með einhverjar, ekki trúlegar skýringar á ferðum sínum, en viðbúið er að þeir viti í sjálfu sér lítið, ef nokkuð, um hvaðan fíkniefnin komu né heldur hver átti að taka við góssinu hér á landi. Það voru 38 kíló af amfetamíni og 5 kíló af kókaíni.