SMS frá almannavörnum þurfa að skila sér

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsverð ólga hefur gripið um sig meðal íbúa á Reykjanesskaga vegna jarðhræringa í grennd við fjallið Þorbjörn við Grindavík undanfarnar vikur. Land hefur risið um nokkra sentimetra og jarðskjálftavirkni hefur verið töluverð.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi á Reykjanesskaga vegna landriss við Þorbjörn. Ef til rýmingar kemur senda almannavarnir SMS-skilaboð til þeirra sem á svæðinu eru og vísa þeim í rétta átt til að komast í öruggt skjól. 

Slík skilaboð skila sér illa ef farsímar eru stilltir á hljóðlausa stillingu eða þannig að þeir ónáði ekki eigendur sína (svokallaða „Do not disturb“ stillingu). Hjá þessu er þó hægt að komast án þess að hafa sífellt kveikt á hljóðinu. 

Vakin var athygli á því á íbúasíðu Grindvíkinga á Facebook hvernig hægt er að vista símanúmer Neyðarlínunnar í símaskrá símans og stilla þannig að viðvörun heyrist þrátt fyrir stillingar um annað. 

Raunar getur verið skynsamlegt fyrir alla að gera viðeigandi ráðstafanir. Leiðbeiningarnar eiga við alla sem vilja ganga úr skugga um að fá skilaboð frá almannavörnum.

Ef þú ert með iPhone-síma þarf að gera eftirfarandi:

1. Vista símanúmerið 112 í tengiliði.

2. Fara inn í tengiliðinn og velja „edit“ efst í hægra horninu.

3. Smella á hnapp þar sem hringitónn fyrir textaskilaboð er valinn.

4. Þar býðst að velja neyðarboð, eða „Emergency bypass“.

5. Skynsamlegt er að velja háværan og auðkennandi hringitón svo að boðin skili sér.

Fyrst þarf að vista númerið í símann.
Fara inn í tengiliðinn og velja „edit“ efst í hægra horninu.
Smella á hnapp þar sem hringitónn fyrir textaskilaboð er valinn.
Þar býðst að velja neyðarboð, eða „Emergency bypass.“
Skynsamlegt er að velja háværan og auðkennandi hringitón svo að boðin skili sér.

Upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu um sambærilegar stillingar í öðrum stýrikerfum farsíma. Fréttastofa sendi fyrirspurn um málið á seljendur Android-símtækja og bíður svara við henni. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi