Smitin innanlands orðin fjögur

06.03.2020 - 19:35
Mynd: RÚV / RÚV
Innanlandssmitin á COVID-19 kórónaveirunni eru orðin fjögur talsins. Heildarfjöldi smitaðra hér á landi er kominn í 45. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir mikilvægt að fólk haldi ró sinni og hafi í huga að um 80 prósent fái væg einkenni veikinnar.

Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í dag, eftir að fyrstu tilfellin um smit milli fólks hér á landi voru greind. Allt fólkið sem hefur smitast innanlands hefur verið í samskiptum við fólk sem nýlega hefur dvalið á Ítalíu eða í Austurríki. Rætt var við sóttvarnalækni í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

Reyna sérstaklega að vernda viðkvæma hópa

Hann sagði ekki ástæðu fyrir almenning að vera óttasleginn þó að neyðarstigi hafi verið lýst yfir í dag. „Við höfum sagt allan tímann að þetta væri sýking sem myndi koma hingað til lands og hún myndi að öllum líkindum dreifast innanlands og það er að gerast núna en ég held að það sé bara hollt að muna það að langflestar sýkingarnar, yfir 80 prósent af þessum sýkingum eru mjög vægar,“ sagði Þórólfur. Það sé tiltölulega lítill hluti sem fái veikina alvarlega og það séu þá eldri einstaklingar og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma. Nú sé verið að einblína á þann hóp, vernda hann og forða frá sýkingum. „Þessar aðgerðir sem við erum að grípa til núna miða að því.“

Kemur til greina að herða einhvern veginn eftirlit með þeim sem eru að koma frá útlöndum? „Það er dálítið erfitt að gera það, við höfum eftirlit með þeim sem eru með einkenni en vegna þess að þessi sýking er svo væg hjá mörgum að þá geta þeir geta sloppið í gegn hvernig sem við munum reyna að veiða þá þannig að það er mjög erfitt að ná þeim.“

Ætla að hafa leiðbeiningar sem skýrastar

Reynt verður að herða á leiðbeiningum og tilmælum til einstaklinga sem eru viðkvæmir og geta farið illa út úr sýkingunni, segir Þóróflur. „Við munum koma með ráðleggingar til þeirra um hreinlætisaðgerðir og jafnvel kannski að forðast mannamót og passa sig þess vegna betur. Við erum líka að hugsa um hvort það þurfi að koma strangari leiðbeiningar um skemmtanabann eða samkomubann, það er ekki alveg ljóst hvernig það verður.“

Þórólfur segir að nú sé reynt að matreiða upplýsingar frá yfirvöldum á þann hátt að allir skilji þær. Þá minnir hann á símann 1717 þar sem fólk getur fengið ráðleggingar. „En það er um að gera að reyna að halda ró sinni og segja frá því sem er satt og rétt í þessu og að meira en 80 prósent fá þessa sýki vægt. Það er mjög mikilvægt að muna það.“

Mynd með færslu
Alma Möller, landlæknir.  Mynd: Viðar Gíslason - RÚV

Alma Möller, landlæknir, segir að neyðarstigið breyti ekki miklu fyrir heilbrigðiskerfið, það sé undirbúið. „Það er búið að fara í mikla vinnu, eins og inni á Landspítala. Þannig að akkúrat það sem gerðist í dag breytir ekki miklu.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum að neyðarstigið snúi að viðbúnaði stofnana og fyrirtækja og geti haft áhrif á starfsmenn þeirra. „En svona almennt hefur þetta ekki bein áhrif á almenning, til dæmis þýðir þetta ekki samkomubann,“ sagði hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

En eykur þetta líkur á því að það verði sett á?
„Já það styttist í að það ferli fari í gang. Það er ákvörðun sem er tekin af ráðherra í samráði við ríkisstjórn og mjög marga aðra. Heilbrigðisráðherra hefur þessa heimild, að setja þetta á. Og það auðvitað kemur að því ferli.“

Ómögulegt er að segja hvenær komi að því ferli að setja á samkomubann. „Það fer eftir því hvort við förum að sjá fleiri smit innanlands. Við þurfum að fara að sjá einhverja útbreiðslu því þetta er tól sem við viljum beita sem svona mjög stífu úrræði og viljum ekki gera það fyrr en við teljum að það sé orðin algjör nauðsyn á því og að það hafi tilætluð áhrif.“

Hert eftirlit með skemmtiferðaskipum 

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins er væntanlegt hingað til lands á mánudaginn. Landhelgisgæslan ætlar að fara fram á að skipstjórinn afhendi vottorð um hvort grunur sé um smit um borð. „Ef svo er munum við gera sóttvarnarlækni viðvart sem svo í samráði við önnur stjórnvöld gerir viðeigandi ráðstafanir, svo sem eins og að banna farþegum að stíga á land og koma í veg fyrir að skip leggist að bryggju á meðan unnið er úr sýnum,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.