Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Smitin á Íslandi orðin 65

09.03.2020 - 18:44
Mynd með færslu
Oddur Steinarsson læknir, klár í sýnatöku vegna COVID-19 Mynd: Læknavaktin - RÚV
Fimm smit af COVID-19 kórónaveiru voru greind hér á landi eftir hádegi í dag og er heildarfjöldinn því orðinn 65. Þrjú þeirra sem voru greind í dag smituðust innanlands, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu Almannavarna.

Hin tvö eru smit sem rekja má til skíðasvæðanna í Ölpunum. Um 500 manns eru í sóttkví. 

Almannavarnir héldu upplýsingafund í dag þar sem fram kom að öll skíðasvæði í Ölpunum væru skilgreind sem áhættusvæði. Allir sem koma þaðan þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví. Svæðin eru í fjórum löndum; Austurríki, Sviss, Þýskalandi og Frakklandi. Þessi svæði bætast við áðurnefnd áhættusvæði (Kína, Suður-Kórea, Íran og Norður-Ítalía auk Ischgl í Austurríki). Nýju svæðin eru t.d. Val Thorens, Chamonix, Zermatt, St. Anton, Ischgl, Serfaus, Sölden, Garmisch, Hintertux, Kitzbuhel, Saalbach, Wagrein.