Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Smitandi lifrardrep líklega ástæða kanínudauða

25.03.2020 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Sjúkdómurinn smitandi lifrardrep er að öllum líkindum orsök þess að kanínur veiktust og drápust í Elliðaárdal í síðustu viku, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum rannsókna á kanínuhræjum sem Matvælastofnun sendi til greiningar á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Þessi sjúkdómur hefur ekki greinst áður hér á landi í kanínum utan kanínubúa eða heimmila á Íslandi. Yfir fimmtíu hræ voru hirt í dalnum.

Lifrardrep í kanínum er alvarlegur, tilkynningarskyldur sjúkdómur, að því er segir á vef Matvælastofnunar. Hann hefur einu sinni áður komið upp hér á landi, árið 2002, og þá takmarkaðist smitið við kanínubú og heimiliskanínur. Með niðurskurði og smitvarnaráðstöfunum tókst að ráða niðurlögum hans.

Því er beint til kanínueigenda að gæta þess að smit berist ekki í kanínur þeirra, með því að kynna sér eðli sjúkdómsins og hvað hægt sé að gera til að verjast smiti. Veiran sem veldur sjúkdómnum sýkir ekki önnur dýr eða fólk.

Veiran smitast þegar dýr snerta hvert annað, hræ eða eitthvað sem smitið hefur borist á, svo sem fóður, jarðveg eða vatn. Önnur dýr og fólk smitast ekki af veirunni en geta auðveldlega borið hana með sér í hári, húð, fatnaði eða skóm. Dýr sem hafa sýkst og náð bata geta smitað í langan tíma eftir að þau eru orðin frísk, að því er segir á vef Matvælastofnunar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir