Smeykastir við COVID-19 en rólegastir yfir loftslagsvá

12.02.2020 - 16:15
epa08199489 A staffer works in the pop-up Huoyan Laboratory specialized in the nucleic acid test on the novel coronavirus (2019-nCoV) in Wuhan, Hubei province, China, 06 February 2020 (issued 07 February 2020). The P2-level biosafety lab was built in five days, designed to perform 10,000 coronavirus tests per day to cope with the outbreak. The virus, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 638 people and infected over 31,000 others, mostly in China.  EPA-EFE/SHEPHERD ZHOU CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FeatureChina
Framsóknarmenn eru manna líklegastir til að óttast að COVID-19 veiran berist hingað til lands og að þeir sjálfir smitist af henni. Þeir eru á hinn bóginn manna ólíklegastir til að þjást af loftslagskvíða, ásamt Miðflokksmönnum. Píratar eru gjarnastir á að glíma við loftslagskvíða en manna ólíklegastir til að óttast að þeir smitist sjálfir af COVID-19.

Þetta er meðal þess sem má lesa út úr nýjum Þjóðarpúlsum Gallups um loftslagskvíða og afstöðu til COVID-19 veirunnar. 

Um þriðjungur landsmanna hefur mjög eða frekar miklar áhyggjur af því að COVID-19 veiran berist hingað til lands og álíka markir hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur af því. Um fimmtungur óttast mjög eða frekar mikið að smitast af veirunni en nær helmingur ekki. Rétt rúmlega fimmtungur finnur fyrir frekar, mjög eða gífurlega miklum loftslagskvíða en rúmlega helmingur finnur fyrir frekar eða mjög litlum eða engum loftslagskvíða.

Mikill munur eftir stjórnmálaskoðunum

Talsverður munur er á loftslagskvíða og ótta við COVID-19 eftir því hvar fólk stendur í stjórnmálum. Sem fyrr segir hafa Framsóknarmenn mestar áhyggjur af veirunni en glíma við minnstan loftslagskvíða. 41 prósent Framsóknarmanna óttast að COVID-19 berist hingað, nær tíu prósentum fleiri en að meðaltali meðal landsmanna. Tuttugu og fimm prósent Framsóknarmanna óttast að smitast, líkt og reyndar sama hlutfall Vinstri grænna og litlu lægra hlutfall Miðflokksmanna. Það er nokkuð meira en meðaltalið, sem er 20 prósent.

Þegar athyglin beinist að loftslagskvíða eru engir ólíklegri til að finna fyrir slíkum kvíða en Framsóknarmenn og Miðflokksmenn. Sex prósent hvors flokks um sig finnur fyrir miklum kvíða. Miðflokksmenn eru líklegastir allra til að hafa litlar áhyggjur af loftslagsmálum, 81 prósent finna fyrir litlum eða engum kvíða. Sambærilegar tölur fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru 67 prósent og 62 prósent fyrir Framsóknarflokkinn. Þar sem fólk getur valið valkostinn „hvorki miklum né litlum“ ná svör hvers og eins flokks aldrei hundrað prósentum.

Óttanum jafnast skipt hjá Vinstri grænum og Viðreisn

Vinstri-græn koma Framsóknarmönnum næst í ótta við við að Covid-19 berist hingað til lands. 38 prósent Vinstri grænna lýsa miklum ótta við slíkt. Þeir eru líka næst efstir á blaði yfir þá sem eru líklegastir til að glíma við loftslagskvíða. 36 prósent Vinstri grænna lýsa slíkum kvíða í svörum sínum. 

Vinstri græn eru ásamt Viðreisnarfólki þau sem lýsa jöfnustum áhyggjum af Covid-19 og loftslagsbreytingum. Munurinn er sá að ótti Viðreisnarfólks við veiruna (23 prósent) og útbreiðsla loftslagskvíða (27) meðal þeirra er öllu minni en hjá Vinstri grænum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi