Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Smáréttahlaðborð leikverka

Mynd: Kristín Gunnlaugsdóttir / Kristín Gunnlaugsdóttir

Smáréttahlaðborð leikverka

09.11.2017 - 14:25

Höfundar

„Mín skoðun er ekki endilega sú rétta. Mín sýn er ekki sú eina,“ segir í leikskrá sýningarinnar Ég býð mig fram. Þar fá hugmyndir þrettán listamanna líf gegnum Unni Elísabetu Gunnarsdóttur listakonu. Sýningin samanstendur af þriggja mínútna örverkum höfundanna sem Unnur flytur.

Aðdragandi sýningarinnar var sá að Unnur sendi bréf til 13 listamanna sem höfðu veitt henni innblástur og haft áhrif á hennar sköpun. Í bréfinu bauð hún þeim að semja örverk sem hún myndi flytja fyrir þau, í hvaða mynd sem er. 

Að sögn Unnar eru verkin jafn ólík og þau eru mörg. „Þarna mætirðu í Mengi og færð að sjá 13 örverk, sem er í rauninni fyrir allt árið. Sýningin er þannig fyrir fólk sem elskar smáréttahlaðborð, þarna færðu bara allt sem þér dettur í hug, þannig að ég held að það sé mjög skemmtilegt kombó,“ segir hún.

Meðal listamannanna eru danshöfundurinn Aðalheiður Halldórsdóttir og leikkonan Vala Kristín Eiríksdóttir. Aðalheiður segir verkefnið hafa reynst viðameira en það hljómaði í fyrstu. „Þetta er merkilega flókið, maður heldur kannski að þetta sé einfalt enda bara 3 mínútur, en að byrja á einhverju, koma því á koppinn og ná að enda það, allt á 3 mínútum, það er bara mjög slungið.“

Lífið er fáránlegt

Vala Kristín samdi einleik fyrir Unni Elísabetu sem ber yfirskrifina Miðaldra sorglega týpan. „Þetta er grafalvarlegur og heiðarlegur mónólógur sem ég skrifaði. Ég notaði bara texta og ekkert annað, hún situr bara á stól í ljótustu flíspeysu landsins og flytur texta sem kom út frá mjög erfiðum hugrenningum en verður mjög kómískur af því að lífið er fáránlegt og hausinn á manni er stundum fáránlegur.“

Að sögn Aðalheiðar eru verkin gjörólík en mynda ólíkt en þó heillegt landslag. Hún segir vinnsluferli síns verks á sýningunni hafa verið annað en hún notast oftast við. „Ég samdi efnið á sjálfri mér og setti á hana, það er ein af mörgum leiðum til að semja efni og það er alltaf dálítið sérstakt, að taka sinn stíl og reyna að setja ofan á manneskju. Það er lika hægt að vinna það alveg öfugt, vinna efnið út frá manneskjunni en ég ákvað að prófa að gera það svona núna.“

Aðrir höfundar örverkanna eru: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Arnór Dan Arnarson, Kristín Gunnlaugs, Barði Jóhannsson, Margrét Bjarnadóttir, Daði Freyr Pétursson, Hannes Þór Egilsson, Ólöf Nordal og Saga Sig. 

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.