Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Smálán í áratug: „fordæmalaust háttalag“

Mynd: Matthew Henry / https://burst.shopify.com/photos
Lán í óláni, þegar þannig stendur á, óvænt útgjöld? Svona markaðsetja smálánafyrirtæki sig. Saga þeirra á Íslandi spannar nú um áratug og er býsna viðburðarík. Eignarhald fyrirtækjanna er óljóst. Skuldavandi ungra Íslendinga sem hafa steypt sér í smálánaskuldir er aftur á móti augljós. Neytendastofa hefur farið þess á leit við löggjafann að starfsemin verði leyfisskyld en þær umleitanir hafa ekki fengið hljómgrunn. 

SMS-lánin komin til landsins

„Að fá smálán er ótrúlega einfalt og það er afgreitt strax inn á bankareikninginn þinn.“ Svona hljóðar auglýsing frá Kredia, sem birtist í DV í desember 2009, þá voru fyrirtækin rétt að byrja. Fjölmiðlar fjölluðu um að fyrirtæki sem byðu svokölluð sms-lán væru nú komin til Íslands og sumir gátu þess að orðspor þeirra á Norðurlöndunum væri slæmt. 

Allt löglegt - engin leyfi

Þann 29. október 2009 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Leif Haraldsson sem titlaður var framkvæmdastjóri Kredia. Hann sagði viðtökurnar hafa verið framar vonum. Þá upplýsti hann um að stofnendur fyrirtækisins hefðu átt fundi með Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu eftir að starfseminni var ýtt úr vör í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að allt væri löglegt. Í ljós hafi komið að svo væri, þá hafi ekki þurft að sækja um nein leyfi vegna starfseminnar. Í greininni segir að sé miðað við 10 þúsund króna lán séu nafnvextir á ársgrundvelli tæp 608%. Leifur sagði að hjá Kredia væri litið á þessa þóknun sem lántökukostnað fremur en vexti. 

Maxaði hjá öllum smálánafyrirtækjunum

Spegillinn heyrði í forsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins, Hjálparstarfs Kirkjunnar og Pepp, samtaka fólks í fátækt. Öll sögðust þau kannast vel við það að fólk tæki smálán í neyð eða burðaðist með íþyngjandi smálánaskuldir árum saman. Forsvarsmaður Hjálparstarfs kirkjunnar sagði það þó sýna tilfinningu að dregið hefði úr því upp á síðkastið að fjölskyldufólk tæki þessi lán í neyð. Ungt fólk leitar nú í auknum mæli til Umboðsmanns skuldara og aðalvandi þess er smálánaskuldir.

Mynd með færslu
 Mynd:
Bið eftir mataraðstoð. Smálánafyrirtækin sprutu upp eftir hrun þegar efnahagur landans var hvað bágbornastur.

Hafrún Ósk Hafsteinsdóttir tók árið 2012 smálán sem vatt upp á sig. 

„Þetta varð eiginlega svolítill vítahringur. Ég tók smá fyrst, svo þurfti ég að borga með vöxtum til baka, svo þurfti ég að taka meira því ég var orðin peningalaus, borga það með vöxtum. Svoleiðis gekk þetta þar til ég var búin að maxa allt, öll smálánafyrirtæki og gat þá væntanlega ekki borgað það til baka.“ 

Hún tók smálán reglulega í ár, fór svo í greiðsluaðlögun. „Þá var þetta fellt niður eftir x langan tíma, það tók slatta tíma og ég er enn að vinna á þessu. Lánshæfismatið mitt er alveg hræðilegt.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV

Búið að rústa lífi margra

Hafrún segist hafa tekið fyrsta lánið í lok mánaðar, til að geta gefið barninu sínu að borða. Hún var á fjárhagsaðstoð, einstæð móðir. Hún segist ekki hafa áttað sig á skilmálunum eða því að lánið ætti eftir að koma í bakið á henni. „Ég pældi ekkert í því á þeim tíma.“ Hún segist þekkja þó nokkur dæmi um að lánin hafi lagt líf fólks í rúst. „Bara fólk í kringum mig sem er búið að taka smálán, maxa þau öll og er í þvílíkum vanskilum.“ 

Hugsanleg tengsl við brottfall úr skóla

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Sara Jasonardóttir, verkefnastjóri fræðslu- og kynningarmála hjá embætti Umboðsmanns skuldara, segir að það sé orðið viðtekið meðal ungs fólks að taka þessi lán, fræðslu um hugsanlegar afleiðingar þess skorti. Hún fundaði nýlega með Sambandi framhaldsskólanema og veltir því upp hvort smálánaskuldir ungmenna tengist öðrum vanda. „Við áttum gott samtal við Samband íslenskra framhaldsskólanema, hvort þeim þætti ekki þörf á aukinni fjármálafræðslu þar, þeir voru sammála því. Við fórum svo að ræða þetta út frá þessu átaki varðandi brottfall, hvort þetta gæti ekki tengst og að þeirra sögn hættir fólk oftast í skóla til þess að fara að vinna, þá veltir maður fyrir sér hvort það geti ekki verið einhver tenging þarna á milli.“ Að í einhverjum tilfellum finni fólk sig knúið til að hætta í námi og fara að vinna til að eiga fyrir smálánaskuldum. 

Árni Páll vildi banna smálánafyrirtækjum að lána efnalitlum

Árið 2010 lagði Árni Páll Árnason, þá efnahagsráðherra, fram frumvarp um smálánafyrirtæki, til stóð að banna þeim að greiða út lán þegar í stað og gera þá kröfu til þeirra að þeir könnuðu greiðslugetu lánþega og lánuðu ekki fólki sem væri með lægri meðaltekjur en atvinnuleysibætur yfir árs tímabil. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frumvarp Árna náði ekki fram að ganga.

Neytendasamtökunum lítt gefið um fyrirtækin

Neytendasamtökin hafa alla tíð haft horn í síðu þessara fyrirtækja, sem spruttu upp eftir hrun þegar efnahagur landans var hvað bágbornastur. Í Neytendablaðinu, þann 1. nóvember 2009, er fjallað um Kredia sem þá bauð lán að upphæð tíu til 40 þúsund sem þurfti að greiða upp innan fimmtán daga. Fram kemur að lánaskilmálarnir séu ekki í samræmi við lög um neytendalán en að því miður falli lán af þessu tagi, sem einungis eru veitt í fimmtán daga ekki undir lögin. Kostnaðurinn við minnsta lánið, tíu þúsund kall, nam 25% sem svaraði til 600% á ársgrundvelli. Í umfjölluninni segir: „Lán sem þessi hafa verið harðlega gagnrýnd í nágrannalöndum okkar enda beinist markaðssetningin nær einungis að yngri neytendum og þeim sem hafa lítið handa á milli. Þá er ekki hægt að segja að lánskjörin séu annað en okur.“ Samtökin sögðu lánin alls ekki til þess fallin að leysa fjárhagsvanda og vöruðu eindregið við þeim. Síðan hefur nokkuð vatn runnið til sjávar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir fyrirtækin brjóta lög.

Lög um neytendalán náðu til smálána

Í nóvember 2013 voru starfseminni settar skorður en þá tóku gildi lög um neytendalán. Sett var þak á þann kostnað sem lánveitandi má leggja á lán. Í tilkynningu sem Neytendasamtökin sendu frá sér í gær segir að þessi nýju lög hafi fyrirtækin ítrekað brotið á síðastliðnum árum og úrræði stjórnvalda til að koma í veg fyrir starfsemina, sem þau segja ólöglega, dugi skammt. Það virðist hagstæðara fyrir fyrirtækin að standa í málarekstri við eftirlitsstofnanir, dómstóla og fá á sig sektir en að fara að lögunum og lækka lánakostnaðinn. 

E-content fyllti mæli samtakanna

Samtökin sendu þann 6. febrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erindi þar sem þau krefjast þess að ráðuneytið endurskoði starfshætti smálánafyrirtækja og tryggi að þau starfi lögum samkvæmt. Í erindinu segir að í lok árs 2009 hafi samtökin fundið sig knúin til þess að senda efnahags- og viðskiptaráðherra erindi og krefjast aðgerða vegna fyrirtækjanna. Þá hafi ekki verið að heyra mikinn vilja hjá ráðuneytinu til að aðhafast í málinu, það hafi í svari sínu vísað til þess að sameiginlegar reglur evrópska efnahagssvæðisins varðandi atvinnufrelsi stæðu í vegi fyrir aðgerðum, og sagt að treysta þyrfti á dómgreind neytenda. Ástæðan fyrir því að Neytendasamtökin töldu tímabært að senda nýtt erindi til stjórnvalda er fyritækið E-content ehf, sem Neytendasamtökin segja móðurfélag Kredia, Smáláns, 1909, Múla og Hraðpeninga. Fram kemur að Neytendastofa hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að lánaskilmálar fyrirtækisins brjóti gegn ákvæðum laga um neytendalán. Neytendastofa hafi lagt sektir á fyrirtækið en þrátt fyrir það hafi hvorki skilmálar né fyrirkomulag útlána E-content breyst með nokkrum hætti. Fyrirtækið hafi að vísu byrjað að krefjast þess að neytendur keyptu rafbækur samhliða lántökunni í stað þess að greiða, svokallað flýtigjald sem héraðsdómur staðfesti árið 2016 að væri ólöglegt og leiddi til þess að heildarlántökukostnaður fór yfir leyfileg mörk.

Tugmillljóna sektir - en voru þær greiddar?

 Sektirnar sem neytendastofa hefur lagt á smálánafyritækja nema tugum milljóna. Í maí 2016 lagði hún stjórnvaldssekt upp á 750 þúsund á tvö fyrirtæki, í nóvember 2016 var lögð stjórnvaldssekt á E-content að fjárhæð 2,4 milljónir og 12 júlí síðastliðinn var lögð 10 milljóna króna stjórnvaldssekt á E-content auk 500 þúsund króna dagsekta, áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti þá ákvörðun þann 6. nóvember. En hafa þessar sektir yfirleitt verið greiddar? Neytendasamtökin hafa spurt en ekki fengið nein svör frá fjársýslu ríkisins. Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, veit ekki frekar en forsvarsmenn Neytendasamtakanna hvort fyrirtækin hafa greitt sektirnar, segir það innheimtumanns ríkisins að tryggja það. 

Gjaldþrot og eigendaskipti

Árið 2014 höfðuðu Smálán og Kredia mál á hendur Neytendastofu og fóru fram á að ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála yrði ógilt. Neytendastofa var sýknuð af kröfum þeirra. Haustið 2016 var fyrirtækið smálán ehf. úrskurðað gjaldþrota. Í apríl í fyrra fór eins fyrir Credit One, sem áður hét Kredia. Hvorugt félagið hefur skilað ársreikningi frá árinu 2013, samkvæmt Creditinfo. Í frétt mbl.is frá því í fyrravor segir að Slóvakinn Mario Megela hafi keypt bæði fyrirtækin árið 2013 og að hann sé skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í báðum. Samkvæmt upplýsignum Kjarnans keypti Magela félögin af Leifi Haraldssyni, sem var framkvæmdastjóri Kredia árið 2009. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Dæmi eru um að fólk taki smálán fyrir matarinnkaupum.

Áhugamaður um golf og yfir smálánafyritæki í Tékklandi

Í úttekt Umboðsmanns skuldara eru 12 kröfuhafar eða innheimtuaðilar skilgreindir. Á bak við þá geta verið mörg smálánafyrirtæki. Embættið telur Netgíró og Pei til smálánafyrirtækja, sömuleiðis Aktiva sem býður upp á jafningjalán. Fyrirtækin Hraðpeningar, Smálán, 1909, Múla og Kredía virðast nú öll skráð í Danmörku. Vefsíður þeirra, sem eru afar áþekkar, eru komnar með danskt lén og af þeim öllum má ráða að þjónustan heyri undir fyrirtækið Ecommerce 2020 ApS, sem er til húsa við Havnegade 39 í Kaupmannahöfn. Spegillinn hringdi í fyritækið Smálán. Að sögn þjónustufulltrúa fyrirtækisins, sem ekki vildi gefa upp fullt nafn, heitir forsvarsmaður fyrirtækisins Ondrej Smakal. Samkvæmt Linkedin er Smakal, sem er á fertugsaldri, framkvæmdastjóri smálánafyrirtækis í Tékklandi og áhugamaður um golf.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/linkedin
Meintur forsvarsmaður Ecommerce. Ekkert staðfest í þeim efnum.

Höfnuðu kröfum umboðsmanns skuldara án rökstuðnings

Sara hjá Umboðsmanni skuldara segir að embættið hafi ekki komist að því hverjir eiga og eru í forsvari fyrir smálánafyrirtæki og innheimtufyrirtæki sem þjónusta þau. Þá hafi viðræður verið erfiðar í upphafi, tilboðum hafnað án rökstuðnings. Nú gangi það betur. „Það eru fyrirtæki að innheimta fyrir marga kröfuhafa og það reyndist okkur erfitt að komast til botns í því hvert bæri að beina kröfunni, hver tæki ákvarðanir um samninga um þær. Þetta hefur lagast en það reyndist erfitt í byrjun. Þetta voru kannski nýir kröfuhafar á markaði og ekki með sömu reynslu og þekkingu og stærri kröfuhafar þegar kemur að því að veita eftirgjöf og ná samningum þegar fólk er komið á þann stað að geta ekki greitt. Okkar tilboðum var kannski hafnað án rökstuðnings. Við lögðum fram eitthvað sem við  erum vön að leggja fram og aðrir kröfuhafar vanir að ganga að en hjá þessum fyrirtækjum fengum við kannski höfnun án rökstuðnings án þess að búið væri að skoða málið. Þá náttúrulega þurftum við að leita að þeim sem raunverulega tækju ákvarðanir, ná einhverjum samningum og samtali.“

Þetta leiddi til þess að embættið komst í samband við lögmenn eða fulltrúa fyrirtækjanna. 

Óvissa um eigendur og forsvarsmenn

Embættið á fyrst og fremst í samskiptum við þessa fulltrúa eða lögmenn innheimtufyrirtækja á borð við E-content. Þau vita ekki hverjir eigendur eða forsvarsmenn smálánafyrirtækjanna eru. Þá vita þau ekki heldur hverjir eiga innheimtufyrirtækin eða eru í forsvari fyrir þau. Tryggvi veit ekki heldur hverjir standa að baki þeim.

Alþingi fór ekki að tillögum Neytendastofu um leyfisskyldu

En eru úrræði Neytendastofu gagnvart Smálán og Kredia bitlaus eins og Neytendasamtökin halda fram? „Í raun og veru hefur Neytendastofa talsvert miklar valdheimildir á sínu sviði en í þessu tilviki þá hefur Neytendastofa reynt að beina því til löggjafans að setja skýrari reglur sem virka betur. Í fyrsta lagi, árið 2000, þegar verið var að skoða neytendalán á Alþingi, þá lögðum við til að fjárhæðarmörk væru engin, það var ekki tekið tillit til þess þá. Við höfum líka lagt til við Alþingi að þetta verði leyfis- eða skráningarskyld starfsemi svo hægt sé að svipta aðila leyfi ef þeir brjóta lögin. Það var ekki gert en að frumkvæði Neytendastofu, þegar neytendalánalögin voru í meðferð á Alþingi, þá lögðum við til að það yrði sett 50 prósenta hámark á vextina og Alþingi samþykkti það en bætti við að auk þess mætti hafa stýrivexti, því til viðbótar, svo eins og staðan er í dag er þetta 54,5% sem er leyfilegt, þeir hækkuðu í raun og veru þakið,“ segir Tryggvi.  

Hann segir leyfis og skráningarskyldu þessara fyrirtækja forsendu fyrir því að hægt sé að stöðva starfsemi þeirra. En hvers vegna hefur Alþingi ekki farið að tillögum Neytendstofu? „Því get ég ekki svarað en þetta hefur farið inn í ýmsum tillögum, umsóknum eða verið bent á með öðrum hætti í gegnum árin.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi fór ekki eftir tillögum Neytendastofu.

Háttalag fyrirtækjanna fordæmalaust

Tryggvi segir Neytendastofu hafa gert allt sem í hennar valdi stendur. „Við höfum beitt öllum úrræðum sem við höfum, við höfum bannað þeim að setja þessa ofurvexti á, þau hafa ekki hlýtt því, þau reyndu að komast undan því með því að selja rafbækur þess í stað. Á þessu tókum við líka. Ákvörðunum okkar um bann við þessum viðskiptaháttum hefur aðilinn ekki hlýtt þó það hafi verið staðfest af áfrýjunarnefnd og héraðsdómi. Það sem gerist svo í fyrra er að fyrirtækin fara frá Íslandi og eru eftir okkar bestu vitund nú í Danmörku og beina sinni markaðssókn hingað inn til Íslands.“ 

Hann segir háttalag fyrirtækjanna án fordæma. 

„Við höfum aldrei lent í því áður að fyrirtæki séu að starfa með þeim hætti sem við erum að sjá.“ 

Enga hjálp að fá frá systurstofnunum - ekki strax

Neytendastofa getur oft leitað aðstoðar systurstofnana í öðrum Evrópuríkjum en þar er enga hjálp að fá þegar kemur að ólöglegri markaðssetningu smálánafyrirtækjanna. „Vandinn er sá að það er ekki innan ramma Evróputilskipunar sem þetta samstarf tekur til. Vandinn er auðvitað þekktur á öllu evrópska efnahagssvæðinu og því er í drögum að nýjum reglum um þetta samstarf tillögur um að það eigi að lögfesta reglur sem heimila Neytendastofu að loka síðum sem eru með ólöglegri markaðssetningu beint til neytenda. Þetta er í ferli og mun ekki koma til lögfestingar fyrr en eftir eitt, tvö ár.“