Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slökktu til að fyrirbyggja fleiri ljósboga

Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Forstjóri álvers Rio Tinto í Straumsvík segir að ákveðið hafi verið að slökkva á öllum kerskála þrjú til að fyrirbyggja að ljósbogar mynduðust í fleiri kerjum. Ljósbogi myndaðist í einu kerinu, en enginn starfsmaður var nálægt. Ekki liggur fyrir hversu mikið tjónið er, en það hleypur á milljörðum. Meira en þriðjungur framleiðslunnar liggur niðri.

Rannveig Rist, forstjóri álvers Rio Tinto í Straumsvík, staðfestir að ljósbogi hafi myndast í einu kerjanna í kerskála þrjú aðfaranótt mánudags og því hafi hún ákveðið að slökkva á öllum skálanum í tveimur áföngum. Fleiri ljósbogar hefðu getað myndast í öðrum kerjum. Ljósboginn varði einungis í brot úr sekúndu, en heppni var að enginn var nálægt þegar það gerðist.

„Þetta eru 160 ker og það er ekki alltaf einhver við þau, þannig að það er auðvitað heppni að enginn var nálægur, það er þannig. En ljósboginn var inni í kerinu, þannig að hann fór ekki úr kerinu og á milli einhvers annars,” segir Rannveig. Kerið þar sem ljósboginn myndaðist er ónýtt.

Ekki er búið að ákveða hvenær eða hvernig kerin 160 verða tekin aftur í notkun, en það er langt ferli og einungis er hægt að standsetja eitt ker í einu. Þangað til liggur meira en þriðjungur framleiðslunnar í Straumsvík niðri. Slökkt er á átján kerjum í hinum kerskálunum tveimur, sem er óvenjumikið. Rannveig segir að ekki sé hægt að meta fjárhagslegt tjón af lokun kerskálans, en öryggi starfsfólks sé ætíð í fyrirrúmi. Þó er ljóst að tjónið hleypur á milljörðum króna. Í dag var tekið á móti nýjum súrálsfarmi sem vonast er til að henti betur í framleiðsluna.