Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slökktu á kerjunum vegna hættulegs ljósboga

22.07.2019 - 17:53
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Þriðjungur framleiðslu álvers Rio Tinto í Straumsvík liggur niðri. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, Bjarni Már Gylfason, segir öryggi starfsfólks ætíð í forgangi, en þetta sé mikið högg fyrir reksturinn. Svokallaður ljósbogi myndaðist í einum þriggja kerskála álversins og því var ákveðið að slökkva á kerjunum. Forsvarsmenn Rio Tinto vilja ekki tjá sig um málið.

Óvíst hvenær kveikt verður aftur á kerjunum

Framkvæmdastjórn álvers Rio Tinto í Straumsvík í Hafnarfirði ákvað í gær og nótt að slökkva á einum af þremur kerskálum verskmiðjunnar af öryggisástæðum. Óvíst er hvenær kveikt verður aftur á kerjunum, sem eru 160 talsins, og þriðjungur allrar álframleiðslu í Straumsvík.

Fyrstu yfirlýsingar frá Straumsvík í morgun lýstu því sem svo að vandræði hafi komið upp í keri þar sem notast var við annað súrál en alla jafna. Súrálið er mun fínna og erfiðara í bræðslu, sem getur komið ójafnvægi á kerin og hefur það verið viðvarandi ástand undanfarnar vikur. 

Rio Tinto neitar að tjá sig

Forsvarsmenn Rio Tinto á Íslandi vilja ekki koma í viðtal vegna málsins en Bjarni Már segir í samtali við RÚV að óróleiki hafi verið í kerjunum undanfarnar vikur og því hafi verið ákveðið að slökkva á öllum skálanum til að tryggja öryggi starfsmanna. 
 
Samkvæmt heimildum fréttastofu myndaðist svokallaður ljósbogi í kerskálanum. Það getur gerst þegar ójafnvægi myndast í keri sem veldur því að rafskaut detta af skautgöfflum, en rafmagnið þarf þá að ferðast í gegn um loftið á milli skauta og skautgaffla. 

Margfallt heitari en sólin

Ljósbogi getur verið allt frá 10.000 til 30.000 gráðu heitur. Til samanburðar er yfirborð sólarinnar 6.000 gráðu heitt. Vísindamenn sem fréttastofa hefur rætt við segja ljósboga svipað fyrirbæri og eldingu, nema miklu, miklu öflugri.  

Enginn slasaðist þegar ljósboginn myndaðist. Trúnaðarmaður starfsfólks, Reinhold Richter, staðfestir að enginn hafi verið nálægt þegar það gerðist.  

Fjárhagslegt högg

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu var ákvörðun um að slökkva á skálanum innra öryggismál hjá Rio Tinto og við fyrstu sýn hafi verið brugðist rétt við. Eftirlitsmaður muni setja sig í samband við öryggisstjórann til að fá nánari útskýringar.

Bjarni Már staðfesti þó að þetta sé mikið fjárhagslegt högg fyrir fyrirtækið, en öryggi starfsfólks sé í forgangi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hleypur framleiðslutjónið á milljörðum, en reynt hafi verið að stýra aðgerðinni svo að endurræsingin gangi eins vel fyrir sig og kostur er. Álverið hefur glímt við rekstrarörðugleika undanfarið og tap af rekstri þess var rúmlega fimm milljarðar króna í fyrra.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV