Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slök útkoma bókmenntaþjóðar í náttúrufræði

05.12.2019 - 08:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Slök útkoma íslenskra nemenda í náttúrufræði er til marks um verðmætamat þjóðar sem lítur fyrst og fremst á sig sem bókmenntaþjóð, segir Ari Ólafsson, forstöðumaður Vísindasmiðjunnar.

„Við erum neðst Norðurlanda og undir meðaltali OECD. Þessi staða er óviðunandi. Þetta er kannski afrakstur af okkar áherslum í okkar samfélagi. Við leggjum litla áherslu á þessi atriði. Við teljum okkur fyrst og fremst vera bókmenntaþjóð,“ segir Ari um slæma útkomu íslenskra ungmenna í alþjóðlegu PISA könnuninni á hæfni og getu fimmtán ára ungmenna. Hann ræddi niðurstöðuna í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Íslensk ungmenni koma illa út í eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði og líffræði. Ari segir mikilvægt að kenna þessar náttúrufræðigreinar. „Hún er undirstaðan fyrir allri tæknimenningu. Þetta er eðlilegur hluti af okkar menningu. Við erum líka að gera út á túrismann. Þar spilar þetta meginrullu.“

Náttúrufræði fær átta prósent kennslustunda á Íslandi en sextán prósent í Finnlandi. Ísland kemur verst Norðurlanda út í náttúrufræðigreinum en Finnland best.

Ari segir að styðja verði betur við kennara í náttúrufræðigreinum. Þeim sé nú ætlað ofurmannlegt hlutverk.