Slógu upp söngkeppni í blikksmiðju á Akureyri

26.02.2020 - 20:35
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Ofurhetjur, nornir og drykkjarumbúðir skottuðust á milli verslana víða um land í dag í leit að sælgæti í tilefni öskudagsins. Á Akureyri var slegið upp söngkeppni í blikksmiðju.

Öskudagshefðin er sérlega rík á Akureyri. Þar tóku börn og foreldrar daginn snemma, bjuggust í gervi hinna ýmsu furðuvera og örkuðu út í kuldann til að syngja fyrir sælgæti. Hjá Blikkrás á Akureyri var haldin metnaðarfull söngkeppni. Keppnin hefur verið haldin í meira en 30 ár. 

Auglýstu eftir krökkum

„Okkur fannst öskudagurinn vera að fara niður og krakkarnir hættir að æfa og svona og þetta var dagur sem var í minningunni hjá okkur ægilega skemmtilegur. Þannig að við ákváðum þá að gera eitthvað þannig að við fórum að auglýsa eftir krökkunum, komið á Blikkrás,“ segir Oddur Helgi Halldórsson, eigandi Blikkrás. 

„Við ákváðum að hafa þessa söngkeppni, þá voru líka pizzur nýjar og við höfðum svona söngkeppni og bestu liðin sem myndu vinna þau fengju að fara á okkar kostnað og fá sér pizzu,“ segir Oddur.