
Slóð eignarhaldsins endar á Cayman-eyjum
Eftir að fjórir fyrrum kröfuhafar Kaupþings keyptu af Kaupþingi tæplega 30% hlut í Arion banka hefur komið fram sú krafa að upplýst verði um eignarhaldið, því ekki er vitað nákvæmlega hverjir kaupendurnir eru. Þegar opinberar upplýsingar um eignarhaldið eru skoðaðar endar það í tveimur tilfellum á kunnuglegum slóðum, í Karíbahafi.
Í fréttatilkynningu um söluna kom fram að félag á vegum bandaríska fjárfestingarsjóðsins Taconic Capital hefði keypt 9,99% hlut, í gegnum lúxemborgskt félag, sem nefnist TCA New Sidecar III. Samkvæmt fyrirtækjaskrá í Lúxemborg er það félag svo í eigu félags á Cayman-eyjum, Taconic Sidecar Master Fund SPC. Engar opinberar upplýsingar er hægt að fá um eigendur þess, þar sem á Cayman-eyjum ríkir leynd um eignarhaldið.
Forsvarsmenn Taconic Capital segja í samtali við fréttastofu að að baki Cayman-eyjafélaginu séu sjóðir, sem svo séu í eigu fjárfestanna sem eru að kaupa hlutinn í bankanum. Fjárfestarnir hafi verið fengnir sérstaklega í kaupin, enda bindi þeir fé sitt í lengri tíma en vant er hjá sjóðnum. Forsvarsmenn Taconic segjast skuldbundnir til að gæta nafnleyndar um hverjir fjárfestarnir eru, en þeir séu um 20-30 talsins. Forsvarsmenn Taconic segjast þó ætla að veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar um eignarhaldið, í trúnaði.
Taconic Sidecar Master Fund SPC, Cayman-eyjafélagið sem heldur utan um 9,99% hlutinn í Arion banka, er skráð til heimilis í George Town, höfuðstað Cayman-eyja, í byggingu sem nefnist Ugland House. Í þessari fimm hæða skrifstofubyggingu eru hátt í 19 þúsund félög skráð með heimilisfang.
Forsvarsmenn Taconic segja að fjárfest sé í gegnum Cayman-eyjar til að fjárfestarnir greiði ekki meiri skatt en ef þeir fjárfestu beint í hlutabréfunum. Þeir séu ekki að koma sér undan skatti. Samkvæmt íslenskum lögum þarf að birta nöfn þeirra einstaklinga sem eiga óbeint 10% hlut eða meira í banka. Forsvarsmenn Taconic Capital segja að enginn einstaklingur í þeirra fjárfestahópi eigi svo mikið.
Hjá fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group er uppsetningin sambærileg. 6,6% hlutur í Arion banka er seldur lúxemborgska félaginu Sculptor Investments, sem aftur er í eigu annars Lúxemborgarfélags, Sculptor Holdings. Það er svo, samkvæmt fyrirtækjaskrá í Lúxemborg, í eigu félags á Cayman-eyjum, Sculptor Cayman Holdings. Ekki náðist í talsmann Och-Ziff við vinnslu fréttarinnar.