Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sló dróna niður af svölunum hjá sér

19.01.2018 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöldi kölluð til vegna dróna sem var á sveimi fyrir utan stofuglugga íbúðar á fjórðu hæð fjölbýlishúss í Breiðholti. Íbúa hússins brá við að sjá drónann og sló í hann með þeim afleiðingum að hann hrundi til jarðar og eyðilagðist.

Samúel Þórir Drengsson, íbúi í Blikahólum, segir að dóttir hans hafi fyrst orðið vör við drónann þar sem hún sat í stofunni heima hjá þeim. Stærðarinnar dróni hringsólaði þá um, um tíu sentímetrum fyrir utan gluggann, og ljós blikkuðu.

„Hún kemur hlaupandi til mín og segir að það sé dróni fyrir utan stofugluggann. Ég sé svo að hann er sveimandi beint fyrir framan svalirnar, svona tíu sentímetrum frá þeim,“ segir Samúel.

„Dóttur minni var brugðið og mér fannst þetta mjög skrítið. Ég fór því út á svalir og byrjaði á að kasta snjó í drónann. Ég greip svo í einhvern pappa sem var þarna og náði að slá í hann,“ segir Samúel en höggið varð til þess að dróninn missti alla stjórn og hrundi niður á bílastæði hússins.  

Sagðist hafa ekki hafa verið að hnýsast

Á bílastæðinu hitti Samúel svo fyrir eiganda drónans sem kom hlaupandi. Sá sagðist vera nýbúinn að kaupa drónann og hefði verið að prófa  hann. Samúel gerði lögreglu þá viðvart og segist hafa óttast að á drónanum væri myndefni innan úr íbúð hans. 

Lögreglan kom stuttu síðar á vettvang og tók skýrslu af eiganda drónans og öðrum manni sem var í samfloti með honum. Birgir Örn Guðjónsson lögreglumaður segir að dróninn hafi eyðilagst þegar hann féll til jarðar og því hafi ekki verið hægt að skoða myndefnið sem hann hafði tekið upp. Rætt var við eiganda drónans, sem gat litlu svarað um hvað honum hefði gengið til, en þvertók þó fyrir að hafa verið að njósna eða hnýsast. 

Að sögn Birgis koma reglulega upp atvik þar sem lögregla er kölluð til vegna óvelkominna dróna. Lögregla beinir þeim tilmælum til drónaeigenda að kynna sér reglur um drónaflug, friðhelgi einkalífs og persónuvernd. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV