Slakað á í eineltismálum í kjölfar uppsveiflu

04.09.2019 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einelti virðist hafa aukist við uppsveiflu í efnahagslífinu. „Í kjölfar hrunsins, frá 2008-2011, lækkaði einelti hjá okkur. Síðan hefur þetta heldur farið upp á við. Eitthvað hefur slakað á í samfélaginu og það er kannski í kjölfar þess að efnahagurinn batnar,“ segir Þorlákur Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar. Skólar og starfsfólk hafi verið sérstaklega meðvitað um að einelti gæti aukist í kreppunni. Fleira spili þó inni í en staða efnahagsmála.

Rúm sex prósent barna verða fyrir einelti

Þetta er meðal niðurstaðna úr eineltiskönnunum í grunnskólum sem fylgja Olweusaráætluninni. Rúmir hundrað skólar hafa tekið þátt í áætluninni með einhverjum hætti hér á landi. Börn í fjórða til tíunda bekk taka eineltiskönnunina árlega. Fréttablaðið greindi frá. 

Samkvæmt könnun þessa skólaárs segjast 6,2 prósent barna á þessum aldri hafa orðið fyrir einelti. Þessi tala fór niður í 4,8 prósent árið 2012. Haustið 2007, skömmu fyrir hrun, töldu 7,6 prósent barna sig hafa orðið fyrir einelti. 

Ákveðnir hópar barna verða frekar fyrir einelti

Rannsóknir leiða í ljós að börn sem búa við knappari kjör eiga frekar á hættu að verða fyrir einelti, segir Þorlákur. Þá hafi komið í ljós að fötluð börn og hinsegin börn tilheyri þeim hópum barna sem verði meira fyrir einelti en önnur börn, segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Einelti víða í samfélaginu

Þorlákur segir að einfaldasta svarið við því hvers vegna börn og fullorðnir leggi aðra í einelti sé það að þau komist upp með það. Einelti sé úti um allt í samfélaginu og ekki sé skipulega unnið gegn því, segir hann. Starfsfólk og aðrir þurfi að vera stöðugt á varðbergi. 

„Greinilega erum við ekki að gera nóg miðað við þær tölur sem við erum að fá um vanlíðan barna og vaxandi einelti. Við verðum auðvitað að bregðast við. Við verðum að reyna að stemma stigu við einelti með öllum ráðum,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Það sé alltof mikið um einelti í skólum. Bæði einelti og vanlíðan barna virðist fara vaxandi. Því sé ástæða til þess að skoða málaflokkinn betur en hafi verið gert hingað til. Hún sé tilbúin að leggja sitt af mörkum á þá vogarskál. Einelti sé stóralvarlegt mál sem verði að bregðast við vegna þeirra hræðilegu afleiðinga sem getur haft á líðan barna og jafnvel fylgt þeim inn í fullorðinsárin.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi