Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Slagsmálahundurinn sem varð forseti

12.02.2016 - 14:33
Mynd: EPA / EPA
Þegar Vladimír Pútín tók við embætti forseta Rússlands á gamlársdag 1999, eftir að Boris Jeltsín sagði óvænt af sér, var hann flestum óskrifað blað, enda bara örfáir mánuðir síðan Jeltsín hafði skipað hann forsætisráðherra landsins. Hann átti þó sannarlega eftir að láta til sín taka á forsetastóli. En hvernig komst hann yfirleitt í þessa stöðu?

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar að þessu sinni um uppvöxt Vladimírs Pútíns og leið hans til æðstu metorða í Rússlandi. Þáttinn má hlusta á í heild sinni hér að ofan. 

Æska í rústum Leníngrad

Pútín fæddist og ólst upp í Leníngrad, borg sem var þá enn að ná sér eftir hamfarir heimstyrjaldarinnar, og langvinnt og mannskætt umsátur Þjóðverja.

Hann þótti ódæll piltur, slagsmálahundur og lélegur nemandi framan af, en fékk ungur brennandi áhuga á njósnastörfum og eftir það komst fátt annað að en að ganga til liðs við leyniþjónustuna KGB. 

Njósnari á skrifstofunni

Draumur Pútíns var að verða sendur á vegum KGB til útlanda, en þegar hann loks var sendur til Dresden í Austur-Þýskalandi voru það af öllu að dæma vonbrigði.

Tilvera Pútíns sem njósnara varð aldrei eins spennandi og hann hafði gert sér í hugarlund og hann sinnti aðallega skrifstofustörfum. 

Eitt vetrarkvöld í Dresden 1989, þegar Pútín sjálfur horfðist í augu við reiðan mannfjölda, ekki löngu eftir fall Berlínarmúrsins, átti þó eftir að hafa mikil áhrif á hann. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurflutt á mánudögum klukkan 14:03.

verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður