Slæmar og ekki jafn slæmar fatasamsetningar

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest

Slæmar og ekki jafn slæmar fatasamsetningar

24.02.2020 - 16:56
Eins og áður hefur verið fjallað um þá eru oft settar hinar ýmsu reglur um hvernig maður eigi að klæða sig, hvaða hlutir fari saman og hvað ekki. Í tískuhorni vikunnar fer Karen Björg yfir samsetningar af fatnaði og aukahlutum sem eru af mörgum taldar hræðilegar.

Karen segir mikið vera um reglur um hvað megi og hvað megi ekki fara saman, hún sé hins vegar ekki sammála öllu. Til dæmis er oft talað um að gull og silfur skartgripir fari ekki saman en það geti þeir alveg gert. 

Eitt sem fari hins vegar í taugarnar á henni sé þegar fólk klæðist joggingbuxum við skyrtu. Þar ætti maður frekar að taka ákvörðun um að vera í skyrtu og gallabuxum eða jakkafatabuxum, eða í jogginbuxum og bol. Sömu sögu sé að segja um hvíta íþróttasokka við spariskó, það fari ekkert sérstaklega vel saman. „Sumir halda kannski að sokkar skipti ekki máli, en þeir geta svo sannarlega gert það,“ bætir hún við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Joggingbuxur og skyrta og hvítir íþróttasokkar við spariskó eru ekkert sérstakar samsetningar.

Það getur líka verið hættulegt að blanda mynstrum. Doppur og rendur með blómamynstri ganga sjaldan upp, þó svo það sé ekki endileg ómögulegt að láta það passa.

Litir hafa líka valdið mörgum hugarangri, sumir segja að brúnn og svartur, blár og svartur og grár og brúnn passi ekki saman en því er Karen ósammála. Annað má kannski segja um skæra liti eins og rauðan og grænan, grænan og bleikan og grænan og appelsínugulan, sem geta verið erfiðari viðureignar ætli maður að vera í þeim saman.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest

Karen ræddi fleiri misgóðar samsetningar í tískuhorni vikunnar. Þú getur hlustað á það í heild sinni í spilaranum efst á síðunni.