Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skýrslutökur yfir Olsen verða í lok ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalmeðferð í máli Birnu Brjánsdóttur gæti verið seinkað fram í lok ágúst. Til stóð að hefja aðalmeðferð málsins á morgun en vegna tafa á matsgerð réttarmeinafræðings er skýrslutökum frestað yfir Thomasi Möller Olsen sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu. 

Mál Birnu Brjánsdóttur vakti mikla athygli og óhug meðal þjóðarinnar í byrjun árs. Birna hvarf sporlaust aðfaranótt 14. janúar. Fljótlega bárust böndin að rauðri Kia Rio bifreið, sem Thomas Möller Olsen var með á leigu, og grænlenska togaranum Polar Nanoq sem hafði legið fyrir landfestum við Hafnarfjarðarhöfn. Sérsveit ríkislögreglustjóra fór um borð í togarann og handtók Olsen og annan skipverja vegna gruns um að hafa banað Birnu. Lík Birnu fannst nokkrum dögum síðar í fjörunni rétt vestan við Selvogsvita í Selvogi í Ölfushreppi, eftir umfangsmikla leit.

Olsen hefur ávallt neitað sök. Hann er talinn hafa veist að Birnu í Kia Rio bifreiðinni og varpað henni í sjóinn. Í bílnum fannst mikið blóð sem DNA-rannsókn leiddi í ljós að væri úr Birnu. Þá fannst ökuskírteini Birnu í ruslafötu um borð í Polar Nanoq. Á því voru fingraför Olsens og blóð úr Birnu fannst á úlpu hans.

Skipverjinn, sem var látinn laus, ber ekki vitni á morgun

Til stóð að hefja aðalmeðferð við Héraðsdóm Reykjaness á morgun en vegna tafa á matsgerð þýsks réttarmeinafræðings verður skýrslutökum yfir Olsen frestað þar til í lok ágúst. Aftur á móti eru skýrslutökur yfir skipverjum Polar Nanoq enn á dagskrá á morgun.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir óvíst hvort aðalmeðferð málsins verði frestað eða að hlé verði gert á málsmeðferðinni, en meginreglan er sú að aðalmeðferð hefjist með skýrslutöku yfir sakborningi. Á morgun verða teknar skýrslur af sjö skipverjum Polar Nanoq en maðurinn, sem var handtekinn og sat um tíma í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að morðinu, ber vitni síðar. Hann er ekki lengur grunaður og var sleppt eftir tveggja vikna gæsluvarðhald.