
Skýrir ekki af hverju hann talar ekki við RÚV
Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum af hverju Sigmundur Davíð vildi ekki veita fréttastofu RÚV viðtal. Jóhannes Þór segir að Sigmundur hafi ekki þegið boð um viðtöl við RÚV og að forsætisráðherra gefi engar frekari skýringar á því.
Sigmundur hefur rætt við aðra fjölmiðla eftir að Wintris-málið kom upp. Fyrsta viðtalið sem hann veitti var forsíðuviðtal Fréttablaðsins 24. mars. Þar sagði hann að honum hefði ekki borið siðferðisleg skylda til að segja frá félaginu. Hann sagðist jafnframt alltaf hafa litið svo á „að Íslendingar allir séu kröfuhafar í bönkunum.“
Sama dag var Sigmundur Davíð í viðtali við Útvarp Sögu. Þar sagðist honum lítast ágætlega á boðaða vantrauststillögu. Sigmundur var einnig gestur Sprengisands á Bylgjunni í lok síðasta mánaðar. Þar sagði hann stöðu sína aldrei hafa verið sterkari. Sama dag birti hann ásamt eiginkonu sinni úttekt þeirra á Wintris-málinu á vef sínum.
Sigmundur ræddi einnig fyrirhugaða tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof og nýjar kosningar við bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið. „Ég er feginn að sjá að þau virðast ætla að manna sig upp í að flytja vantrauststillögu,“ sagði Sigmundur í samtali við mbl.is á miðvikudag.
Í viðtali við Reykjavík síðdegis í gær sendi forsætisráðherra svo Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, tóninn.
Sigmundur sagði hann og stjórnarandstöðuna hafa lítið annað gert en að þvælast fyrir í viðræðunum við kröfuhafana. „Þau þvældust fyrir í hverju skrefi með hjálp PR leiðtoga, vogunarsjóðanna sem allir meira og minna eru nátengdir Samfylkingunni og svo leyfir þetta fólk sér að koma núna og halda því fram að það sé eitthvað grunsamlegt við það að ég hafi verið tilbúinn til að fórna miklu af eignum eiginkonu minnar til að bjarga þessu samfélagi.“