Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skýringin á „Minna hot í ár” heldur ekki vatni

02.08.2019 - 11:31
Nýir þingmenn árið 2017
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gefur ekkert fyrir skýringar Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um ummæli hans í hennar garð, enda séu þau full af rangfærslum. Íris hefur aldrei verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Vestmannaeyjum, en Bergþór sagði ummælin „minna hot í ár" hafa snúist um að sitjandi bæjarfulltrúi hafi stofnað annan flokk. Íris segir Klausturmálið öllum þeim sem þátt tóku til háborinnar skammar.

Bergþór og Gunnar Bragi brutu siðareglur

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður og formaður þingflokks Miðflokksins, brutu siðareglur með ummælum sínum á barnum Klaustur í nóvember, samkvæmt siðanefnd Alþingis og sérstakri forsætisnefnd. Aðrir þingmenn flokksins sem sátu á barnum og þáverandi þingmenn Flokks fólksins gerðust ekki brotlegir, en Anna Kolbrún Árnadóttir er látin njóta vafans vegna ummæla sinna um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartrar framtíðar. Farið var yfir ummæli þingmannanna um Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingar, Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra og varaformann Framsóknarflokksins, Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Ragnheiði Runólfsdóttur, afrekskonu í sundi, og Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.  

„Náttúrulega mjög dónalegt, en...”

Bæði Bergþór og Gunnar Bragi mótmæla niðurstöðunum harðlega í andmælabréfum sínum til forsætisnefndar Alþingis. Ummæli Bergþórs um Írisi á Klaustur hljóðuðu svo: 

„Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“ 

Í áliti siðanefndar segir að þessi ummæli lýsi tilteknum viðhorfum til ungra kvenna í stjórnmálum. Þau, sem og ummæli þingmannanna um hinar konurnar, séu ósæmileg, í þeim felst vanvirðing, þau kasti rýrð á Alþingi og skaði ímynd þess. 

Segir bæjarfulltrúastöðu Írisar skýra ummælin

Bergþór segir í andmælabréfi sínu til forsætisnefndar að þetta sé fullkomin della hjá siðanefndinni og hafi ekkert með viðhorf hans til ungra kvenna í stjórnmálum að gera. Hann undirstrikar að mörg og góð hrósyrði hafi einnig fallið um Írisi á Klaustur, og nefnir sem dæmi röggsöm, eldklár og helvíti sæt. Þá segir Bergþór einnig að það blasi við að stjórnmálamaður hafi ekki sömu stöðu innan síns gamla flokks og tveimur árum fyrr, því hann hafi í millitíðinni farið í sérframboð í Vestmannaeyjum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður hreinan meirihluta, náð að fella meirihlutann og farið síðan í meirihlutasamstarf með vinstri mönnum.

Síðan segir Bergþór: „Á meðan á þessu gekk var stjórnmálakonan sitjandi bæjarfulltrúi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Þetta blasir auðvitað við. Það er augljóst í þessu samhengi að það hefur fallið á frambjóðandann, hann er ekki „eins hot“ og hann var áður, hann er ekki eins sterkur osfrv. Það þarf sérstakan vilja til að heyra aðeins kynferðislegan undirtón í þessum ummælum. Þarna er einfaldlega verið að lýsa breyttri stöðu fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hvað möguleika hennar á að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í næstu alþingiskosningum varðar."

Bergþór segir siðanefnd þurfa að vera með sérstaklega vanstilltan kompás ef þessi augljósi hlutur nái ekki í gegn, enda er hér um augljósa rökvillu að ræða. 

„Ekki einu sinni farið rétt með einföldustu staðreyndir”

Íris gefur ekki mikið fyrir þessar skýringar, enda hefur hún aldrei verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Hún var varaþingmaður flokksins í tvo mánuði árið 2010, einn mánuð árið 2011 og einn mánuð árið 2012.

„Ég virði auðvitað álit siðanefndar eins og allir gera að sjálfsögðu. En ég gef ekkert fyrir þessar skýringar þingmannsins hvað mig varðar, þar er ekki einu sinni farið rétt með einföldustu staðreyndir,” segir hún. „Það er staðhæft að ég hafi verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, sem ég hef aldrei verið. Málið er, og hefur verið, þeim sem þátt tóku til háborinnar skammar.” 

Bergþór hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins. Ekki hefur náðst í Gunnar Braga Sveinsson undanfarna daga.