Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skynjar pirring í orðum ráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður stjórnar Læknaráðs Landspítala, segist hissa og hugsi yfir orðum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem hún lét falla á fundi með læknaráði í gær, um að erfitt sé að standa með Landspítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu komi út á færibandi. Ebba Margrét segist hafa skynjað pirring í garð ályktana starfsmanna spítalans.

Segir starfsemina talaða niður

Vandi bráðamóttökunnar var meðal annars ræddur á fundinum í gær, en stjórn spítalans og ýmsar fagstéttir hafa undanfarið lýst yfir miklum áhyggjum af ástandinu þar. Ráðherra gagnrýndi umræðuna sem kemur frá spítalanum - þar sé meira verið að tala niður starfsemina heldur en að byggja hana upp, á sama tíma og verið sé að reyna að kalla eftir ungu fólki til starfa.

Gagnrýnir orð ráðherra harðlega 

Læknaráð fundar reglulega með heilbrigðisráðherra og Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður stjórnar læknaráðs, segir að það sé oftast mjög gagnlegt. 

„Það sem veldur mér áhyggjum engu að síður er að ráðherrann er nánast að segja okkur að við megum ekki kalla hlutina réttum orðum. Ef að ráðherra vill ekki hlusta á eða heyra hvaða orð við notum, og setur nánast ofan í við okkur. Það hefur aldrei staðið á því að við viljum ekki vinna með henni.“

Ebba Margrét segir að orð ráðherra hafi komið sér á óvart.

„Ég er bara hissa og svolítið hugsi yfir því að ég skynjaði pínu pirring í orðum ráðherrans yfir okkar ályktunu, sem hún sagði að kæmu á færibandi, og orðalagi ýmissra starfsmanna spítalans,“ segir hún. 

Boðskapurinn ætlaður læknaráði

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vildi ekki ræða við fréttastofu þegar eftir því var leitað. Í skriflegu svari segir að boðskapur ráðherra á umræddum fundi hafi verið skýr og ætlaður fulltrúum læknaráðs. Hún hafi engu við hann að bæta.