Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skyndibitastaðir selji í raun djúpsteikt risaeðlukjöt

Mynd: - / Pixabay

Skyndibitastaðir selji í raun djúpsteikt risaeðlukjöt

25.03.2020 - 08:36

Höfundar

Við rannsókn á steingervingum sem fundust í kalksteinahelli í Belgíu uppgötvaðist agnarsmár fugl sem talinn er hafa verið uppi áður en risaeðlurnar dóu út. Hann er kallaður undrakjúklingurinn og rennir uppgötvunin stoðum undir þá hugmynd að kjúklingar og alifuglar séu í raun lifandi risaeðlur.

Risaeðluaðdáendur um allan heim tóku gleði sína árið 1993 þegar fyrsta myndin um Júrógarðinn, Jurassic Park, var frumsýnd. Þar er sagt frá því þegar fluga, sem flaug um sama loft og risaeðlurnar önduðu að sér, finnst í trjákvoðu og með blóði sem hún saug úr risaeðlunum tekst manninum að endurskapa þær 65 milljón árum eftir útdauða þeirra. Afleiðingarnar eru þó, eins og flestir sem uppi voru á níunda áratugnum þekkja, ekki samkvæmt áætlun. Sagan er vísindaskáldskapur og engin trjákvoðufundur hefur í það minnsta enn gefið mannabörnum tækifæri til að klappa vinalegum trölleðlum eða þríhyrnum á hausinn eða knúið þau á flótta undan vígtenntum grameðlum.

Minnsti þekkti fugl sögunnar

Nýverið fannst hins vegar ævaforn trjákvoða í Búrma sem hafði reyndar ekki að geyma risaeðlublóð heldur pínulitla steingerfða hauskúpu, aðeins um einn og hálfan sentimeter á stærð. Sævar Helgi Bragason ræddi við Morgunþátt Rásar 1 og 2 í morgun og sagði hann frá uppgötvuninni. Hann segir hauskúpuna tilheyra minnsta þekkta fugli sögunnar og þar af leiðandi minnstu risaeðlu sem hefur fundist enda fuglar afkomendur risaeðlanna. „Þegar grannt er skoðað sjást líka augu svo þessi agnarsmái fugl hefur sennilega vegið innan við tvö grömm eða svo, aðeins örlítið meira en bláber," segir hann um höfuðkúpu fuglsins. „Hann hefur líka haft rosalega góða sjón og sennilega verið rándýr því í höfuðkúpunni fundust líka tennur.“ 

Flestar risaeðlur frekar litlar

Þegar smæð höfuðkúpunnar sé borin saman við minnstu fugla nútímans sé ljóst að hún tilheyri fugli sem hafi verið minni en minnstu kólibrífuglar. Það mætti því segja að það sé rangnefni að kalla svo smátt dýr risaeðlu en Sævar bendir á að langflestar risaeðlurnar hafi, öfugt við hvernig þær sem birtust í Jurassic Park myndunum, verið frekar litlar. Sumar auðvitað frekar stórar en engin þeirra, ekki einu sinni grameðlan sem gerði strandaglópunum í Júragarðinum lífið leitt, var jafn stór og stærsta núlifandi dýrið steypireiðurin. 

Allir sem fari á KFC bragði risaeðlukjöt

Fleiri uppgötvanir hafa líka varpað ljósi á það sem vitað er um tengsl fugla og risaeðla. Í Belgíu fundust fyrir nokkrum árum steinar á stærð við hefðbundinn spilastokk í kalksteinanámu. Út úr þessum steinum stóð einn lærleggur og sköflungur sem minnti einna helst á kjúklingalegg, „bara eins og einhver hefði borðað kjúkling og hent honum frá sér,“ segir Sævar sposkur. Vísindamenn í Cambrigde háskóla skoðuðu steinana og fundu í einum þeirra steingervða hauskúpu af fugli. „Þegar þetta var allt saman aldursgreint kom í ljós að þetta væri 67 milljón ára gamlar eða frá því 700 þúsund árum áður en áreksturinn varð við jörðina,“ segir Sævar. Að mati þessara vísindamanna sé þetta því elsti þekkti steingervingurinn sem tilheyrir nútímafuglum. 

Fugl þessi var nefndur asteria í höfuðið á grískri goðsögn sem breyttist í akurhænu. En í daglegu tali er hann kallaður undrakjúklingurinn. Hann var ögn stærri en kjúklingur nútímans og vó um hálft kíló. Höfuðkúpan minnir á önd en goggurinn á kjúkling sem bendir til þess, samkvæmt Sævari, að fuglinn hafi verið skyldur sjófuglum og alífuglum nútímans. Þetta renni stoðum undir hugmynd sem margir vísindamenn halda á lofti „að kjúklingar og alífuglar séu lifandi steingervingar sem lítið hafi breyst frá því risaeðlur voru uppi,“ útskýrir Sævar glettinn. „Allir sem hafa fengið sér KFC hafa því bragðað djúpsteikt risaeðlukjöt á ævi sinni. Mér finnst það mjög skemmtileg staðreynd.“

Risaeðlurnar syngja inn vorið fyrir utan gluggann

Vísindamenn hafi í gegnum árin mikið brotið heilann um hvernig fuglar hafi lifað af þær hamfarir sem urðu til þess að um 75% af lífi jarðarinnar dó út fyrir um 66 milljónum ára. „Mjög líklegt er að fuglarnir sem lifðu á landi eða við sjó hafi lifað frekar en fuglarnir sem bjuggu í trjám því tré og skógar heimsins brunnu upp til agna við áreksturinn." En litlir fuglar sem bjuggu á öðrum svæðum hafi sennilega komist af og getið af sér þá fugla sem við þekkjum í dag. „Við getum því hlustað á gömlu risaeðlurnar syngja inn vorið. Það finnst mér mjög fallegt.“

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

Bókmenntir

Stjörnu-Sævar vakti heimsendakvíðann