Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skýldi sér í þurrkofni á meðan eldurinn æddi hjá

22.12.2019 - 20:01
Mynd: EPA-EFE / AAP
Ekkert lát er á gróðureldunum sem geisa í Ástralíu. Tveir fórust um helgina. Íslendingur í Sydney segir að það sé engu líkara en heimsendir sé í nánd. Þangað berst mikill reykur.

Mjög hvasst var víða um landið um helgina og því mögnuðust eldarnir. Þorpið Balmoral í Nýju Suður Wales brann til grunna í gær, þar á meðal bær Steve Harrison. Hann kveikti á öllum vatnsdælum og vatnsúðurum þegar hann sá eldinn nálgast en allt kom fyrir ekki; húsin, garðurinn og innkeyrslan urðu alelda.

Mynd með færslu
Steve Harrison, íbúi í Balmoral í Nýju Suður-Wales. Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP

„Daginn áður hafði ég komið mér upp litlum þurrkofni bakatil og...ofni á stærð við líkkistu, nógu stór fyrir mig til að skríða inn í og ég leyndist þar í hálftíma meðan eldurinn æddi hjá,“ sagði Harrison í sjónvarpsviðtali í dag. „Það var varaáætlunin mín. Ég náði ekki að fara því þetta kom svo fljótt. Svo að ég lá þarna með eldvarnateppið og slökkvitækið.“

Mynd með færslu
Þarna skýldi Harrison sér á meðan eldurinn æddi hjá. Hann hafði með sér eldvarnateppi og slökkvitæki. Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP

Tveir fórust i eldunum um helgina. Alls hafa tíu farist síðan eldarnir kviknuðu í október. 

Þóra Hjörleifsdóttir er á ferðalagi um Ástralíu með fjölskyldu sinni. Hún var í Sydney fyrir helgi. Þangað berst mikill reykur frá eldunum fyrir utan borgina og hefur fjöldi fólks þurft að leita á sjúkrahús vegna óþæginda í öndunarvegi vegna reyksins. Suma daga hefur Þóra ekki orðið vör við afleiðingar eldanna en aðra daga finnast þær greinilega.

Einn daginn var það þannig að vindáttin breyttist skyndilega og þá rigndi öskuögnum yfir borgina og Þóru sveið í augun. Eftir því sem leið á daginn varð grárra um að litast. Brunabílar voru á ferð um miðborgina því að eldvarnakerfi í háhýsum fara í gang þegar reykurinn er svo mikill.

Mynd með færslu
Þóra Hjörleifsdóttir, rithöfundur.

„Þannig að alls staðar í skýjakljúfunum voru brunavarnakerfi á fullu og slökkvibílar að keyra út um allar götur og út um allt og fara að húsum þar sem var ekki eldur heldur rosa mikill reykur. Þetta var svona ákveðin heimsenda stemming sem var þarna og fólk að fara út úr vinnunni sinni. Það var algjörlega súrrealískt að sjá þetta,“ segir Þóra sem núna er komin til borgarinnar Melbourne. Þar eru líka miklar öfgar í veðri og hitinn var á föstudag um 46 gráður. „Þetta er heitara en í gufuklefanum í Vesturbæjarlauginni. Þetta er alveg galið.“ Næsta dag var mun kaldara. Þóra varð ekki vör við reykmengun í Melbourne í dag. 

Þóra segir það tregablandið að ferðast um Ástralíu núna og sjá harminn sem fólk hefur orðið fyrir. „Það er mjög átakanlegt að fylgjast með þessu. Fólk er að missa heimili sín, aleigu sína og ástvini.“